Kakan sem allir eru að tala um

Cheerios auglýsingin sem skartar kökunni fögru.
Cheerios auglýsingin sem skartar kökunni fögru. Ljósmynd/Ari Magg

Cheerios-auglýsingarnar hafa glatt þjóðina undanfarna mánuði þar sem þjóðþekktir einstaklingar gæða sér á því og njóta. Ein þessara auglýsinga sýnir tónlistarkonuna og prjónasnillinginn Sölku Sól ásamt fjölskyldu sinni. Á myndinni er forláta kaka úr Cheerios en fæstir vita að kakan kemur úr smiðju Lindu Ben.

Linda segist hafa fengið nokkuð frjálsar hendur við gerð kökunnar og skipuleggjendur auglýsingarinnar hafi sýnt sér mikið traust. „Ég sendi nokkrar hugmyndir um útlit kökunnar á stílista auglýsingarinnar sem voru samþykktar. Ég fékk ákveðnar leiðbeiningar eins og til dæmis að Cheerios-ið ætti ekki að vera malað heldur ættu hringirnir að vera heilir. Kakan átti líka að líta út fyrir að vera einföld og ég fór skrefinu lengra og gerði uppskriftina líka mjög einfalda. Kakan öll inniheldur bara sex innihaldsefni, það þarf ekki að setja hana inn í bakarofn, tekur stutta stund að smella henni saman og er upplagt að gera hana með dags fyrirvara,“ segir Linda

Bragðgóð, einföld og nostalgísk

„Hugmynd mín á bak við kökuna var að endurhanna klassísku morgunkornskökurnar sem við mörg hver þekkjum og setja þær í nýjan búning sem við höfum mögulega ekki séð áður.

Kökurnar eru alveg ótrúlega góðar, Cheeriosinu er velt upp úr smjörbræddum sykurpúðum og sett í bollakökuform. Kökurnar eru seigar og stökkar en kremið ofan á gefur þeim meiri raka svo þær verða eins og karamella. Bollakökunum raðaði ég svo upp í turn til að skapa þessa glæsilegu margra hæða köku,“ segir Linda en kakan hefur vakið athygli eins og áður segir og sú sem þetta ritar fengið þó nokkrar fyrirspurnir frá lesendum um hvernig kakan sé gerð.

Rúsínan í pylsuendanum er síðan hversu góð kakan er en Linda segist afar ánægð með útkomuna. „Hún smakkaðist mjög vel, ég gat varla hætt að narta í það sem varð eftir af deiginu. Uppáhaldsparturinn minn er þó alltaf þegar búið er að mynda kökurnar svo hægt sé að byrja að borða þær,“ segir Linda og talar af reynslu því fyrir jólin sendi hún frá sér bókina Kökur, sem sló í gegn.

Með mörg járn í eldinum

Linda segist hægt og rólega vera að komast niður á jörðina eftir jólabókaflóðið og velgengni bókarinnar. „Bókin fékk alveg frábærar viðtökur og hefur verið söluhæsta matreiðslubók landsins frá því hún byrjaði í sölu, sem ég er gríðarlega þakklát fyrir. Núna fer öll mín orka í að skipuleggja nýja hluti sem munu koma í ljós á árinu, ég er ótrúlega spennt að segja betur frá þeim en það verður að bíða þar til nær dregur,“ segir Linda og ljóst er að það er mikils að vænta fyrir matgæðinga og fagurkera sem fylgja Lindu á samfélagsmiðlum en Linda er einn þekktasti áhrifavaldurinn þar og segir að verkefnin sem hún taki að sér séu mjög fjölbreytt.

„Sem uppskriftahöfundur, matarstílisti og áhrifavaldur á Instagram fæ ég mjög mikið af mismunandi verkefnum. Ég er mest að gera efni fyrir síðuna mína Lindaben.is og Instagramið mitt en ég vinn einnig mikið með auglýsingastofum og fyrirtækjum beint við það að stílisera matarauglýsingar og finnst það ótrúlega skemmtilegt.

Bollakökur
  • 170 g Cheerios
  • 280 g sykurpúðar
  • 50 g smjör

Krem

  • 200 g mjúkt smjör
  • 400 g flórsykur
  • 1 dl rjómi
  • 1 dl bragðlaus olía til að setja deigið í form

Byrjið á því að bræða smjör og sykurpúða á vægum hita í frekar stórum potti, það mun taka nokkrar mínútut og nauðsynlegt að velta sykurpúðunum með sleikju á meðan þeir bráðna. Setjið Cheeriosið út í og veltið því svo það hjúpist allt í sykurpúðum. Setjið 24 stk. pappírsbollakökuform í bollakökuálbakka (ég notaði tvo bakka) og skiptið deiginu á milli forma. Nauðsynlegt er að nota tvær skeiðar til að skipta deiginu í formin og velta þeim alltaf upp úr bragðlausri olíu áður en þær eru settar í deigið. Setjið kökurnar í kæli á meðan kremið er útbúið.

Þeytið smjörið ásamt flórsykri og rjóma þar til kremið er orðið mjög mjúkt, létt og loftmikið. Setjið kremið í sprautupoka með stórum opnum stjörnustút. Takið kökurnar úr pappírsformunum og sprautið á hverja köku. Raðið kökunum í hring á kökudisk, klippið hring úr smjörpappír sem er svolítið minni en hringurinn sem kökurnar mynda á diskinum. Setjið smjörpappírinn á kökurnar og aðrar kökur ofan á (kremið mun klessast örlítið á kökunum fyrir neðan en það er allt í góðu), endurtakið með afganginn af kökunum.

Skreytið til dæmis með gylltu matarglimmeri og nammi.

Ljósmynd/Linda Ben
Ljósmynd/Linda Ben
Linda Ben
Linda Ben Ljósmynd/Íris Dögg Einarsdóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert