Uppskriftin að Brauð & co-snúðunum

Ljósmynd/María Gomez

Ein dularfyllsta og frægasta uppskrift landsins er án efa uppskriftin að Brauð & co-snúðunum sem margir sverja að séu bestu snúðar landsins  ef ekki í heimi.

María Gomez á Paz.is tók það að sér að endurgera snúðana og voru ófáar tilraunir gerðar uns hún „masteraði" uppskriftina. María segir að í Brauð & co-snúðana sé notaður möndlumassi í fyllinguna en hún hafi ákveðið að stytta sér leið og nota kransakökumarsípan frá Odense.

„Þið sem hatið marsípan ekki örvænta þó því ég sver að þið munuð ekki finna neitt marsípanbragð. Mig langar að biðja ykkur að fara alveg 100% eftir bæði uppskrift og aðferð, ekki sleppa né breyta neinu,“ segir María og við hér á Matarvefnum hvetjum ykkur til að prófa. 

Snúðadeig 

 • 45 gr pressuger (fæst í mjólkurkæli bæði í Hagkaup, Fjarðarkaupum og víðar) 
 • 3 dl ylvolg nýmjólk 
 • 100 g sykur 
 • 1 tsk kardimommudropar 
 • 2 tsk vanilluextrakt eða vanilludropar 
 • 150 g kalt smjör skorið í teninga 
 • 2 stór egg 
 • 1 dl grísk jógúrt 
 • 1 tsk. borðsalt 
 • 700 g hveiti 

Kanil-remos-fylling

 • 400 g eða 1 pakki af kransakökumarsípani frá Odense (kemur alls ekkert marsípanbragð, ég lofa)
 • 100 g púðursykur 
 • 1 tsk. fínt borðsalt 
 • 4 1/2  msk. kanill 
 • 1 msk. kartöflumjöl 
 • 4 msk. nýmjólk 

Annað 

 • 1 egg til penslunar 
 • 1 msk. nýmjólk til að blanda við eggið
 • flórsykur til að setja ofan á snúðana

Aðferð snúðadeig 

 1. Byrjið á að velgja mjólkina í skál í örbylgjuofni svo hún sé ylvolg (ekki of heit passa það)
 2. Setjið næst sykur og ger út í hana og hrærið vel og látið standa í 5 mín. eða lengur 
 3. Setjið svo helming af hveiti eða 350 g og salt saman í hrærivélarskál og hrærið saman létt með króknum 
 4. Skerið kalt smjör í teninga 
 5. Bætið svo grískri jógúrt, kardimommudropum, vanilludropum og eggjum út í mjólkurgerblönduna og hrærið vel saman með gaffli eða písk
 6. Stillið nú á hnoð með króknum og hellið blautefnunum út í hrærivélarskálina sem er með helmingnum af hveitinu í 
 7. Bætið smjörinu smátt og smátt við meðan deigið blandast en hér er það mjög blautt (ekki örvænta þótt smjörið sé enn hart og í kögglum) 
 8. Nú má bæta rest af hveitinu við eða hinum 350 g og hnoða í eins og 5 mínútur eða þar til deigið er búið að hringa sig um krókinn og mest af smjörteningunum komið inn í deigið, allt í lagi þótt það séu smá kögglar samt af smjöri 
 9. Deigið er frekar blautt og klístrað en ekki bæta við það meira hveiti, látið það vera svona í skálinni og breiðið stykki yfir skálina 
 10. Látið hefast á volgum stað, best í gluggakistu yfir miðstöðvarofni í eina klst
 11. Gott er að gera remos-fyllinguna á meðan

Kanil-remos-fylling

 1. Tæmið marsípanpakkann alveg eins vel og þið getið, gott að klippa í sundur og taka allt innan úr með sleikju 
 2. Setjið í skál ásamt öllum hinum hráefnunum og þeytið saman í hrærivél eða handþeytara þar til vel blandað saman 
 3. Leggið til hliðar og setjið plastfilmu yfir

Snúðasamsetning 

 1. Hitið ofninn á 50°c hita með blæstri og takið til tvær bökunarplötur undir snúðana
 2. Takið nú deigið úr skálinni og sáldrið vel af hveiti á borðið áður en þið fletjið það út og einnig ofan á deigið
 3. Ekki hnoða það neitt, byrjið bara að fletja út jafnan ferning sem er ca 1 cm þykkur 
 4. Ferningurinn á að vera 50 cm breiður og 60 cm langur (mikilvægt að fara eftir)
 5. Smyrjið öllu kanil-remosinu jafnt yfir ferninginn en skiljið eins og 5 cm eftir á endanum sem er næstur ykkur 
 6. Rúllið svo deiginu varlega upp í pulsu en byrjið á endanum sem er fjær, ekki rúlla alveg að endanum nær ykkur heldur skiljið eftir þessa 5 cm sem remosið er ekki á 
 7. Skerið svo í snúða en hér er mikilvægt að hver snúður sé 6 cm þykkur og já það er mjög þykkt og þannig á það að vera. Takið svo 5 cm endann sem þið rúlluðuð ekki upp og brettið hann undir snúðinn 
 8. Leggið svo 4-5 snúða á hverja plötu og ýtið á hvern snúð með flötum lófa létt svo hann fletjist ögn út, sá það gert þannig í Brauð & co 
 9. Breiðið svo stykki yfir snúðana og setjið í 50°c heitan ofninn til hefingar í 35 mínútur, ekki lengur! 
 10. Takið snúðana svo úr ofninum og hitið ofninn strax upp í 210°C, stillt á blástur 
 11. Penslið snúðana með eggi blandað við 1 msk af nýmjólk og sáldrið vel af flórsykri yfir snúðana með sigti og ekkert vera að spara hann 
 12. Stingið svo strax  í 210°C  heitan ofninn í sléttar 10 mínútur, ekki lengur né skemur 
 13. Leyfið þeim svo að standa á heitri plötunni í 10 mínútur uppi á borði og borðið heita 
 14. Ef þið eigið afganga er gott að hita þá upp í örbylgju í 10 sekúndur, þá verða þeir sem nýir.

Punktar

Ekki örvænta þótt deigið sé blautt, þannig á það að vera. Ekki hræðast marsípanið í fyllingunni en það er notaður möndlumassi í Brauð & co-snúðana sem er nánast það sama og marsípan. Þið munuð hvorki finna marsípanáferð né bragð af því eftir bökun. Mikilvægt er svo að fylgja uppskrift og aðferð alveg eftir skref fyrir skref. Ég lofa þetta er mjög auðvelt og allir geta gert þetta.

Ljósmynd/María Gomez
Ljósmynd/María Gomez
mbl.is