Bjóða afslátt af öllum vörum í dag

Krónan.
Krónan. Ljósmynd/Aðsend

Fjórða árið í röð eru viðskiptavinir Krónunnar þeir ánægðustu á matvörumarkaði, samkvæmt niðurstöðum Íslensku ánægjuvogarinnar. Í tilefni þess vill Krónan þakka viðskiptavinum sínum fyrir og veitir 5% afslátt af öllum vörum í verslunum sínum laugardaginn 30. janúar.

„Að eiga ánægðustu og tryggustu viðskiptavinina er einfaldlega mesta viðurkenning sem við getum hugsað okkur. Þetta hvetur okkur áfram á þeirri vegferð sem við erum: að einfalda lífið og tryggja gæðavöruúrval á réttu verði. Afslátturinn á laugardaginn er okkar leið til að sýna þakklæti beint til viðskiptavina okkar,“ segir Ásta Sigríður Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar. Krónan hlaut hæstu einkunn meðal verslana á matvörumarkaði með marktækum mun eða 74,2 stig af 100 mögulegum.

„Alla daga, allt árið um kring, erum við á vaktinni til að tryggja að okkar viðskiptavinir upplifi órofa þjónustu – hvort sem það er í hverfisverslunum okkar eða á netinu, í snjallverslun Krónunnar, sem einmitt var opnuð í upphafi Covid-faraldursins, til að bjóða upp á fleiri leiðir til að versla með þægindi í huga,“ segir Ásta.

„Merkilegt ár er að baki og viljum við koma þakklæti áleiðis til viðskiptavina fyrir að sýna starfsfólki okkar, sem stendur dag hvern í framlínu verslana okkar, þolinmæði og virðingu, í ljósi þeirra sóttvarnaaðgerða sem við höfum lagt svo mikla áherslu á. Saman höfum við tekist á við aðstæður sem engan óraði fyrir. Þetta nána og opna samtal sem við eigum við viðskiptavini okkar er það sem drífur okkur áfram í að gera betur í dag en í gær.“

Matvöruverslanir stóðu frammi fyrir miklum áskorunum í upphafi heimsfaraldursins og segir Ásta að starfsfólk Krónunnar hafi unnið þrekvirki að halda öllu gangandi. „Verðlaunin eru þeirra sem í framlínu Krónunnar standa.“

Íslenska ánægjuvogin er félag í eigu Stjórnvísi og er framkvæmd könnunarinnar í höndum Zenter rannsókna. Markmiðið með Ánægjuvoginni er að láta fyrirtækjum í té samræmdar mælingar á ánægju viðskiptavina en einnig er um nokkra aðra þætti að ræða sem hafa áhrif, s.s. ímynd, mat á gæðum og tryggð viðskiptavina.

Ásta Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar.
Ásta Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar. Kristinn Magnússon
mbl.is