Ómótstæðileg þrista-ostakaka

Ljósmynd/Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir

Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir, sem heldur úti hinu skemmtilega bloggi Döðlum & smjöri, er hér með uppskrift að þristamús sem ætti að slá í gegn enda þjóðin sjúk í þrista ...

Ómótstæðileg þrista-ostakaka

Botn

 • 150 g smjör
 • 300 g Digestive-kex með rjómasúkkulaði
 • 2 msk. sykur
 • 3 msk. kakó
 • ½ tsk. salt

Bræðið smjör og setjið til hliðar. Setjið öll hin hráefnin saman í matvinnsluvél og malið vel saman. Bætið þá smjörinu saman og setjið vélina í gang í stutta stund í viðbót. Einnig er hægt að setja kexið í plastpoka og lemja með kökukefli og blanda saman við restina af hráefnunum.

Notið form í stærðinni 20-24 cm, gott er að nota smelluform og setja pappír í botninn. Þrýstið blöndunni í botninn og setjið inn í kæli meðan ostakakan er gerð.

Ostakakan

 • 250 g þristar (5 stórir)
 • 100 ml rjómi
 • 375 ml rjómi
 • 450 g rjómaostur
 • 150 g flórsykur
 • 1 tsk. vanilludropar
 • ½ tsk salt

Aðferð:

Brytjið þristana niður og setjið í pott ásamt rjóma og stillið á lága til miðlungsstillingu. Bræðið saman og leyfið að kólna lítillega.

Þeytið rjómann og setjið í skál til hliðar. Setjið þá rjómaost og flórsykur í skál og þeytið í 2-3 mín. þangað til hann er orðinn léttur í sér (óþarfi að þvo skál á milli). Bætið vanilludropum og salti saman við og setjið vélina í gang, þá hellið þið þristablöndunni saman við hægt og rólega meðan vélin gengur.

Þá er rjómanum blandað saman við og er það gert með því að setja helminginn af honum saman við blönduna og hrært varlega saman með sleikju. Restinni er svo bætt saman við og klárað að hræra saman.

Takið botninn úr kæli og setjið ostakökuna yfir, dreifið vel úr og sléttið og setjið inn í kæli. Gott er að leyfa kökunni að vera í kæli í 2-3 tíma áður en hún er borin fram.

Tilvalið að bera fram með ferskum berjum, súkkulaðisósu eða jafnvel fullkomna þetta með smá lakkríssósu!

Ljósmynd/Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir
Ljósmynd/Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir
mbl.is