Rosalegasti humarréttur síðari ára

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Þetta er uppskrift sem fer beint í bókina enda skilgreinist hún sem skyldusmakk og veislusprengja  en það er skilgreiningin sem við notum um mat sem tekur matarboðið upp á næsta stig.

Það er Berglind Hreiðars á Gotteri.is sem á heiðurinn af þessari snilld og má því fastlega vænta þess að hún sé vinsælasti gestgjafinn á höfuðborgarsvæðinu um þessar mundir.

Humar tempura með chilimæjó

Orlydeig uppskrift

  • 300 g hveiti
  • 1½ tsk. lyftiduft
  • 1½ tsk. salt
  • 330 ml pilsner
  • 2 egg
  • 3 msk. ólífuolía

Aðferð:

  1. Blandið öllum hráefnum saman í skál og pískið þar til jafningur hefur myndast, setjið í kæli á meðan annað er undirbúið en að minnsta kosti í 30 mínútur.

Humar – eldunaraðferð

  • Um 700 g skelflettur humar (fæst í næsta stórmarkaði)
  • salt, pipar og hvítlauksduft
  • steikingarolía (um 700 ml)

Aðferð:

  1. Skolið og þerrið humarinn, kryddið með salti, pipar og hvítlauksdufti.
  2. Setjið hann ofan í orlydeigið og veltið um þar með sleif þar til allir bitar eru hjúpaðir deigi.
  3. Hitið steikingarolíuna þar til hún er vel heit og lækkið þá hitann niður í meðalháan. Gott er að prófa að setja smá orlydeig í pottinn til að gera „test“ og ef það fer strax að „bubbla“ vel er tímabært að lækka aðeins hitann og setja eins og 6-8 humarbita ofan í í einu í um 2 mínútur í senn eða þar til þeir verða gylltir (ég steikti á stillingu 7 af 9 hjá mér).
  4. Gott er að nota kleinuspaða eða annan götóttan spaða til að veiða bitana upp úr pottinum, hrista olíuna vel af og leggja á nokkur lög af eldhúspappír til að umframolía leki af og bitarnir haldist stökkir.
  5. Þræðið bitana upp á tréprik eða setjið þá á bakka, sprautið chilimajó yfir (og hafið auka slíkt í skál) og stráið vel af kóríander yfir og spírum ef þið viljið slíkar og gott er að kreista smá límónu yfir allt í lokin.

Chilimæjó uppskrift

  • 230 g Hellmann's-majónes
  • 2 msk. srirachasósa
  • 1 msk. límónusafi

Aðferð:

  1. Pískið allt saman í skál og kælið fram að notkun.
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert