Hversu oft á að þrífa eldhúsvaskinn?

mbl.is/Getty Images

Hreinlæti skiptir höfuðmáli við meðhöndlun matar og oft finnst okkur við standa okkur stórvel en gleymum ákaflega mikilvægum atriðum sem oft falla í skuggann.

Eins og til dæmis eldhúsvaskurinn. Þangað fer skítuga leirtauið og margur hefur þá tilhneigingu að stafla í hann þar til hann er yfirfullur.

Slíkt er auðvitað alveg galið og helst á að vaska allt upp strax. Ef þú ert ekki á þeim buxunum skaltu að minnsta kosti skafa af diskunum í ruslið og stafla þeim saman. Helst skola í leiðinni.

Það gefur augaleið að ef skítugt leirtau fær að drolla í vaskinum í einhvern tíma þá verður það gróðrarstía fyrir bakteríur.

Hluti af því að halda vaskinum hreinum er að þrífa hann reglulega og flest gerum við það þegar við þvoum upp.

Mikilvægt er að nota heitt vatn og sápu og þegar búið er að vaska allt upp skal skrúbba vaskinn að innan og skola, hreinsa niðurfall og láta renna í smá stund til að skola pípulögnina.

Heitt vatn og sápa leysir líka upp fitu í pípulögnunum því ekki viljum við að skíturinn safnist þar. Þess vegna er einnig mikilvægt að hreinsa vel af leirtauinu í ruslið því niðurfallið er ekki rétti vettvangurinn fyrir heimilisúrgang.

Sértu að meðhöndla hráa matvöru á borð við kjöt og fisk skal ávallt skola vaskinn vel á eftir til að forðast bakteríur og nota heitt vatn og uppþvottalög.

Síðan skal skipta reglulega um uppþvottabursta því þeir endast ekki að eilífu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert