Níu ráð fyrir hina fullkomnu steik

Snorri gefur okkur góð ráð varðandi hvernig best sé að …
Snorri gefur okkur góð ráð varðandi hvernig best sé að útbúa góða steik á borðið. mbl.is/Snorri Guðmundsson

Það getur verið kúnst að framreiða fullkomna steik. Oft er mikið í húfi ef um sælkerasteik er að ræða og svangir gestir bíða við matarborðið. En hann Snorri Guðmunds hjá Mat og myndum veit hvað hann syngur þegar á að matreiða góða steik  eða í raun allan mat – og hér gefur hann nokkur vel valin ráð hvað þetta varðar.

  1. Veldu fallega fitusprengt kjöt, þessi fita mun sjá til þess að steikin þín sé safarík og ljúffeng.
  2. Taktu kjötið úr kæli a.m.k. 60 mín. áður en þú ætlar að elda það. Ef kjötið er of kalt þegar það fer á pönnuna muntu enda með kjöt sem er ofeldað að utan áður en það hefur náð réttu kjarnhitastigi.
  3. Þerraðu kjötið með eldhúspappír rétt áður en þú ætlar að setja það á pönnuna. Því minni vökvi sem er utan á kjötinu því auðveldara er að brúna það.
  4. Nuddaðu kjötið með góðri hitaþolinni olíu (ég nota avókadóolíu) og saltaðu rausnarlega áður en þú setur það á pönnuna. Ég bíð oftast með að pipra kjötið þar til eftir steikingu nema ég sé að nota grænan pipar, þá salta ég og pipra fyrir steikingu, það er þó smekksatriði.
  5. Notaðu stálpönnu! Stálpönnur halda hita betur en teflonpönnur og eru því kjörnar í að brúna kjöt. Settu pönnuna á háan hita og bíddu þar til það fer aðeins að rjúka úr henni, bættu þá 1 msk af hitaþolinni olíu út á pönnuna og því næst steikunum.
  6. Snúðu kjötinu! Ekki vera hræd/d við að snúa kjötinu nokkrum sinnum yfir eldunartímann, sérstaklega ef þú ert með stóran bita. Það hjálpar til með jafnari eldun. Ég læt steikurnar venjulega liggja óhreyfðar í 2-2,5 mín á hvorri hlið en eftir það sný ég þeim reglulega.
  7. Notið kjöthitamæli. Þangað til þú ert komin/n með tilfinningu fyrir hversu langan tíma misþykkir bitar af kjöti taka í eldun er kjöthitamælir ein besta fjárfesting sem völ er á og tekur allt stress frá því að elda þykka og dýra steik. 50° er rare, 55° er medium rare, 60° er medium og 65° er medium well.
  8. Smjör, hvítlaukur og kryddjurtir. Þegar 1-2 mín eru eftir af eldunartíma kjötsins er kjörið að bæta smjörklípu, hvítlauksrifi og kryddjurtum (t.d. rósmarín og/eða timían) út á pönnuna og dreypa bræddu smjörinu yfir steikurnar á milli þess sem þeim er snúið reglulega. Þetta hjálpar til við að brúna kjötið enn betur og kryddjurtirnar og hvítlaukurinn gefa ljúffengt bragð.
  9. Hvílið kjötið! Það að hvíla kjötið í 5-10 mín. eftir eldun er mjög mikilvægt skref. Þá fær safinn úr steikinni tíma til þess að dreifa sér aftur um steikina sem verður til þess að hver biti verður safaríkur. Ef steikin er skorin of snemma mun safinn leka úr henni og það vill enginn!
mbl.is/Snorri Guðmundsson
mbl.is