Glæst eldhús í nýbyggðu húsi á Ísafirði

Glæsilegt eldhús í nýbyggðu húsi á Ísafirði.
Glæsilegt eldhús í nýbyggðu húsi á Ísafirði. mbl.is/Mynd aðsend

Falleg eldhús má finna víða á landinu, en þetta hér slær mörgum öðrum við. Hér búa Agnes Aspelund og Víðir Ingþórsson ásamt tveimur börnum sínum. Agnes og Víðir búa í nýbyggðu húsi á Ísafirði og eiga og reka fyrirtækið NORA Seafood og Harðfiskverkun Finnboga.

Fjölskyldan byrjaði að byggja sér steinsteypt hús í firðinum fagra fyrir rúmum tveimur árum. Agnes hefur mikinn áhuga á hönnun af öllu tagi sem og byggingarlist  og á ekki langt að sækja það því faðir Agnesar er arkitekt og teiknaði húsið sem um ræðir.

Innréttingarnar valdar og teiknaðar símleiðis

Agnes segir það hafa verið lærdómsríkt og skemmtilegt ferli að reisa hús og gera það að fjölskylduheimili. Þau byrjuðu að byggja árið 2018 og eru enn í framkvæmdum – ennþá er frágangur eftir utanhúss þó að allt sé nú nánast tilbúið að innan, þar er ýmislegt smálegt eftir. En okkur langar að vita aðeins nánar um glæsta eldhúsið, hvað getur Agnes sagt okkur um það? „Eldhúsið er í alrýminu og er því nokkuð stórt. Þar er nægilegt pláss og góð yfirsýn yfir stofurýmið þar sem krakkarnir okkar eru yfirleitt að leika sér á meðan við eldum, sem er mikill kostur þegar maður er með ung börn,“ segir Agnes sem jafnframt hannaði eldhúsið sjálf og sá um efnisvalið. „Ég er virkilega ánægð með útkomuna því við vorum óviss með að hafa svona opið milli rýma með eyjunni, en það hentar okkur gífurlega vel. Við keyptum innréttingarnar hjá Rafha, en þetta eru KVIK Prato matt-svartar innréttingar sem við ákváðum að hafa gegnumgangandi í öllu húsinu. Við vorum mjög ánægð með þjónustuna sem við fengum hjá Rafha, en allar innréttingar voru valdar og teiknaðar símleiðis og í gegnum einn tölvufund,“ segir Agnes. Þess má einnig geta að borðplötur og vaskar eru úr kvartssteini frá Granítsmiðjunni.

Vaskurinn og vinnuplássið það besta við eldhúsið

Aðspurð segir Agnes vinnuplássið það besta við eldhúsið ásamt 73 cm kvartsvaskinum þar sem lítið mál sé að vaska upp ofnplöturnar og gott sé að þrífa hann. „Vaskurinn og uppþvottavélin eru með upphækkanlegum rekkum sem gerir fráganginn fljótlegri og það skiptir mig miklu máli. Góð lýsing sem passar notkun hverju sinni og hverju rými fyrir sig er líka nokkuð sem ég er ánægð með að við hugsuðum vel út í í framkvæmdaferlinu,“ segir Agnes.

Hreindýralund með béarnaise og meðlæti 

Stórveislur og partíhald hefur verið á undanhaldi hjá Agnesi og Víði þar sem þau fluttu inn í miðjum covidfaraldri í lok mars 2020. Þau segjast hafa náð að bjóða sínu nánasta fólki í spilakvöld og barnaafmæli á síðastliðnu ári. „Þá hefur verið mjög gott að hafa þessa stóru eyju sem er hægt að sitja við og hafa veitingar á. Ég myndi segja að hringborð væri líka mikill plús, því þá sér maður framan í alla sem sitja við borðið og það er hugguleg stemning við það,“ segir Agnes. En þó að Agnes sé fagurkeri og smekkmanneskja út í fingurgóma – hvernig er hún þá í eldhúsinu? „Ég er enginn ástríðukokkur, en það er maðurinn minn hins vegar. Ég sé um hversdagslega matinn en Víðir getur töfrað fram veislur úr hvaða hráefni sem er. Uppáhaldsrétturinn minn er hreindýralund með béarnaise og meðlæti. Verð líka að nefna saltfiskpönnu með ólífum, sólþurrkuðum tómötum og kartöflumús,“ segir Agnes að lokum.

Þeir sem vilja fylgjast með lífinu á Ísafirði og skyggnast inn í framkvæmdir sem enn standa yfir, þá heldur Agnes úti instagramsíðu sem má fylgja HÉR.

- - -

Fylgstu með Mat­ar­vefn­um á In­sta­gram og Face­book. Enda­laus æv­in­týri, hug­mynd­ir, skemmti­leg­ir leik­ir og allt það heit­asta heita ...

Svo megið þið endi­lega tagga okk­ur á In­sta­gram þegar þið eruð að elda eitt­hvað spenn­andi @mat­ur.a.mbl

Innréttingin er frá Rafha og borðplatan er kvartssteinn frá Granítsmiðjunni.
Innréttingin er frá Rafha og borðplatan er kvartssteinn frá Granítsmiðjunni. Mbl.is/Mynd aðsend
Falleg birta leikur um rýmið, enda nóg af gluggum allt …
Falleg birta leikur um rýmið, enda nóg af gluggum allt um kring. Mbl.is/Mynd aðsend
Mbl.is/Mynd aðsend
Vaskurinn flæðir áfram af borðplötunni og er í miklu uppáhalda …
Vaskurinn flæðir áfram af borðplötunni og er í miklu uppáhalda hjá Agnesi. Hann er stór og rúmar léttilega bökunarplötur í uppvaskið. Mbl.is/Mynd aðsend
Eldhúsrýmið áður en innréttingum var komið fyrir.
Eldhúsrýmið áður en innréttingum var komið fyrir. Mbl.is/Mynd aðsend
Agnes Aspelund er fagurkeri út í fingurgóma.
Agnes Aspelund er fagurkeri út í fingurgóma. Mbl.is/Mynd aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert