„Nú segi ég bara OMG!“

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Það er ekkert sjálfgefið að máltíð heppnist vel – jafnvel þótt viðkomandi sé matarbloggari með meiru og þyki flestum fremri í eldhúsinu. En þegar viðkomandi matarbloggari sér ástæðu til að æpa OMG (sem er skammstöfun fyrir oh my god  eða guð minn góður) þá er vert að kanna málið.

Kemur í ljós að Berglind Hreiðars á Gotteri.is var í tilraunamennsku og náði að koma sjálfri sér svo rækilega á óvart með útkomunni að það þótti frétt til næsta bæjar.

„Nú segi ég bara OMG! Ég var að prófa að nota vegan sojahakk í fyrsta skipti og eruð þið að grínast hvað það er mikil snilld! Aldrei hefði ég trúað því að það væri svona bragðgott og gott að vinna með. Ég ákvað að segja engum í fjölskyldunni frá þessu áður en kallað var „gjörið þið svo vel“ og enginn þeirra áttaði sig á því að það væri ekkert nautakjöt í réttinum fyrr en ég sagði þeim það. Þeim fannst þetta öllum bara svakalega gott og því er þetta snilld fyrir þá sem vilja minnka neyslu dýraafurða á heimilinu,“ segir Berglind og við spáum því að þeir sem vilji prófa kjötlaust H&S vilji prófa.

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Kjötlaust „Spaghetti Bolognese“

  • 1 pakki Hälsans Kök-hakk
  • 1 laukur (saxaður)
  • 3 gulrætur (skornar í strimla)
  • 2 hvítlaukrif (söxuð)
  • 1 dós/krukka tilbúin pastasósa (um 350-400 g)
  • 1 msk. óreganó
  • salt, pipar og chilipipar
  • ólífuolía til steikingar
  • soðið spagettí, basilíka og parmesanostur (meðlæti)

Aðferð:

  1. Steikið lauk, gulrætur og hvítlauk upp úr ólífuolíu þar til mýkist, kryddið til eftir smekk.
  2. Bætið frosnu hakkinu saman við, aðeins meiri olíu og steikið áfram við meðalhita í 6-8 mínútur.
  3. Hellið þá pastasósunni yfir og kryddið sósuna til eftir smekk.
  4. Berið fram með soðnu spagettíi, ferskri basilíku og rifnum parmesanosti.

Sojahakkið er laust í sér og hægt að nota það frosið, beint úr pokanum, og því er sniðugt að eiga það í frysti og grípa til þegar maður vill útbúa einfaldan og fljótlegan kvöldverð. Eldamennskan tók í raun aðeins þann tíma sem það tók að sjóða spagettíið því allt annað var klárt á meðan.

- - -

Fylgstu með Mat­ar­vefn­um á In­sta­gram og Face­book. Enda­laus æv­in­týri, hug­mynd­ir, skemmti­leg­ir leik­ir og allt það heit­asta heita ...

Svo megið þið endi­lega tagga okk­ur á In­sta­gram þegar þið eruð að elda eitt­hvað spenn­andi @mat­ur.a.mbl

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert