Bestu bollur sem bakaðar hafa verið?

Ljósmynd/María Gomez

Haldið ykkur fast því við leyfum okkur að fullyrða að þetta séu bestu bollur sem bakaðar hafa verið. Það er engin önnur en María Gomez á Paz.is sem bakaði bollurnar fyrir Bolludagsbækling Hagkaups og hjálpi okkur allir heilagir.

Þetta er bolla fyrir metnaðarfulla og við skorum á ykkur að prófa!

Churros-bollur með sætum vanillurjóma og dulce de leche

Churros-deig

 • 500 ml vatn
 • 110 g smjör
 • 2 msk. sykur
 • ½  tsk. salt
 • 280 g hveiti
 • 2 stór egg
 • 1 tsk. vanilluextract eða vanilludropar
 • 1,5 lítrar grænmetisolía

Sykur til að velta upp úr:

 • 1/2 bolli sykur
 • 1 msk. kanill

Á milli

 • 500 ml rjómi
 • 1 tsk. flórsykur
 • 1 tsk. vanilla extract eða vanilludropar
 • 1 krukka af Dulce de Leche frá Stonewall Kitchen

Aðferð

 1. Byrjið á að hræra saman sykurinn og kanilinn sem á að fara utan á og setjið á matardisk og leggið til hliðar
 2. Nú byrjum við á sjálfu churrosinu
 3. Vatn, smjör og sykur er sett saman í pott og látið byrja að sjóða, lækkið þá hitann niður í miðlungshita
 4. Bætið svo hveitinu út í pottinn smátt og smátt og hrærið vel í á meðan þar til myndast eins og filma í botninn og deigið er orðin falleg kúla, mjög svipað og þegar maður gerir vatnsdeigsbollur
 5. Færið nú deigið yfir í skál og látið kólna í eins og 5-10 mínútur við opinn glugga
 6. Bætið svo vanillu og eggi við í skálina og byrjið strax að þeyta með handþeytara, þar til deigið er orðið silkimjúkt og vel þjappað saman í kúlu. Passið samt að gera ekki of lengi þá verður churrosið seigt
 7. Setjið deigið í sprautupoka með stjörnustút (best að setja smá af deigi í einu)
 8. Sprautið svo deigi á smjörpappa í hringi og klippið í kringum hvern hring svo hver og einn fái sinn pappa
 9. Hitið nú olíuna á djúpri pönnu og setjið smá deig út á til að vita hvort hún sé heit
 10. Setjið svo aðeins þrjá hringi í einu með smjörpappanum á út í olíuna og takið pappann með töng strax af, mjög þægilegt að gera þetta svona svo slettist ekki á mann olía
 11. Steikið þar til churrosið er orðið vel gullinbrúnt og passið að hafa þá nógu lengi í vel heitri olíu svo þeir verði ekki hráir að innan
 12. Setjið þá svo ofan á disk með eldhúspappír á til að taka af alla aukaolíu
 13. Að lokum er annarri hliðinni á churrosinu, sem snýr út, velt upp úr kanilsykursblöndunni og leyft að kólna
 14. Þeytið svo rjóma með flórsykri og vanilludropum
 15. Setjið svo dulce de leche á neðri helminginn á churros og þeyttan rjóma ofan á og lokið með öðrum helming af churros og látið kanilsykurshliðina snúa út 
Ljósmynd/María Gomez
Ljósmynd/María Gomez
mbl.is