Er gagnlegt að sofa með skorinn lauk á náttborðinu til að eyða veirum og bakteríum?

Wavebreakmedia Ltd

Það er trú margra að skorinn laukur á náttborðinu geti komið í veg fyrir pestir og sýkingar og því lék okkur forvitni á að heyra hvað vísindamenn segja um þetta húsráð sem margir fullyrða að virki.

Vísindavefnum barst á dögunum fyrirspurn út af þessu og það var Snædís Huld Björnsdóttir, sameindalíffræðingur og dósent við kíf- og umhverfisvísindadeild HÍ sem tók að sér að svara spurningunni hvort það væri gagnlegt að sofa með skorinn lauk á náttborðinu til að eyða veirum og bakteríum?

Stutta svarið er einfaldlega: Þetta er mýta.

Laukur á náttborðinu ver okkur ekki gegn veirum eða öðrum sýklum. Það er örugglega alveg skaðlaust að sofa með lauk þó að lyktin sé nú varla góð. Mýtur eru hins vegar skaðlegar þegar við treystum á þær í blindni og notum ekki sannreyndar aðferðir.

Ýmsar plöntur framleiða efni sem hindra örverur. Þeirra á meðal eru hvítlaukur og laukur sem mynda allicin og fenólefnin protocatechuic-sýru og catechol. Þessi efni hindra bakteríur og sveppi af ákveðnum tegundum (Matthews o.fl. 2017). Það þýðir þó alls ekki að laukur á náttborðinu verji okkur fyrir sýklum af þessum tegundum eða vinni gegn sýkingum. Ekki frekar en að það dugi einfaldlega að geyma sýklalyf sem við fáum ávísað á náttborðinu. Örveruhamlandi efni þurfa að ná nægjanlegum styrk á sýkingarstað til að hafa áhrif.

Besta leiðin til að verjast sýklum er að þekkja upptök þeirra og smitleiðir. Til dæmis á veiran SARS-CoV-2 sem veldur sjúkdómnum Covid-19 uppruna í smituðum einstaklingum og berst þaðan, einkum með dropum frá öndunarfærum (CDC, 2020). Besta vörnin er því sú að halda fjarlægð frá þeim er kunna að vera smitaðir og þvo hendur vandlega og jafnvel sótthreinsa eftir snertingu við yfirborð og hluti sem þeir hafa verið nálægt.

- - -

Fylgstu með Mat­ar­vefn­um á In­sta­gram og Face­book. Enda­laus æv­in­týri, hug­mynd­ir, skemmti­leg­ir leik­ir og allt það heit­asta heita ...

Svo megið þið endi­lega tagga okk­ur á In­sta­gram þegar þið eruð að elda eitt­hvað spenn­andi @mat­ur.a.mbl

mbl.is