Djúpsteikt og dúndrandi gott blómkál með kóreskri sósu

Ljósmynd/Hanna

Djúpsteikt blómkál gefur djúpsteiktum kjúklingi ekkert eftir og þykir mörgum það jafnvel betra. Hér er Hanna með uppskrift að geggjuðu tempura-blómkáli sem hún ber fram með kóreskri sósu. Í þokkabót bjó hún til myndband sem sýnir aðferðafræðina og trúið mér – það er dáleiðandi að horfa á það.

Djúpsteikt og dúndrandi gott blómkál með kóreskri sósu

Þessi réttur er alveg ótrúlega góður… eiginlega bara rosaflottur. Það hefur ekki gerst áður að karlpeningurinn á heimilinu sé á því að grænmetisréttur geti hugsanlega verið aðalréttur. Heba sá um að setja saman kóresku sósuna, sem passar vel með, en með hvítlaukssósunni er comboið fullkomið.  Fyrir þá sem mikla fyrir sér að djúpsteikja, þá er það eins og með allt annað, æfingin skapar meistarann. Með varkárni að leiðarljósi og djúpa pönnu eða pott er þetta ekki svo flókið. Það er gott að þekkja sínar hellur og vita hvenær olían hefur náð réttum hita (hjálpar mikið að nota hitamæli). Djúpsteikingin sjálf er ekki svo flókin. Það er smekksatriði hversu mikið blómkálið er bútað niður – ef bitarnir eru litlir gæti þurft meira deig en það er lítið mál að búa til meira ef með þarf.

Magn:  Deigið passar fyrir eitt stórt blómkálshöfuð en sósan er rífleg fyrir þann skammt.  Það má segja að hún passi fyrir 1½ uppskrift. Hvítlaukssósan ætti að duga fyrir eina uppskrift en þetta er allt svolítið háð því hversu mikið sósufólk er í mat.

Hráefni

Deig og blómkál

  • 1 frekar stórt blómkálshöfuð
  • 2½ dl hveiti
  • 1 msk. sykur
  • 1 msk. maizena-mjöl
  • 1 tsk. salt
  • 1 tsk. lyftiduft
  • 2 – 2½ dl sódavatn
  • Smá skvetta eða u.þ.b.½ dl af bjór, ef til er, annars bara sódavatn til að þynna deigið

Kóresk sósa

  • 5 msk. gochujang, fæst t.d. í Fiska
  • 1 msk. sykur
  • 2 msk. hunang
  • 3 msk. hrísgrjóna edik (rice vinegar)
  • 2 msk. söxuð hvítlauksrif
  • 1 msk. sesame-olía

Verklýsing

Kóresk sósa

  1. Öllu hráefni blandað saman og hrært

Deig og blómkál

  1. Stilkurinn tekinn og blómkálið brotið niður í smærri bita – best að hafa bitana miðlungsstóra (sjá myndband)
  2. Hveiti, sykur, maizena-mjöl, salt og lyftiduft sett í skál og blandað saman. Sódavatni hellt út í og hrært þangað til deigið er orðið kekkjalaust. Ef deigið er mjög þykkt má setja aðeins meira sódavatn eða smá skvettu af bjór út í það. Ef deigið er látið standa þykknar það aðeins – þá er bara að bæta við smá sódavatni eða bjór
  3. Olían sett í pönnu – ágætt að miða við að bitarnir fljóti án þess að snerta botninn þegar djúpsteikt er.  Olían hituð – þegar hún hefur náð góðum hita er blómkálsbitum dýft ofan í deigið og settir síðan í olíuna (sjá myndband). Þegar fallegur litur er kominn á bitana eru þeir veiddir upp úr – gera má ráð fyrir að steikingartíminn sé í kringum 3 mínútur
  4. Gott að leggja nýsteiktu bitana á eldhúspappír sem dregur í sig mestu fituna

Nokkur atriði varðandi djúpsteikingu:

  • Hitinn á að ná a.m.k. 150°C – gott að nota hitamæli sem mælir svo hátt.
  • Ef olían er of köld heyrist ekki steikingarhljóðið þegar bitar eru settir ofan í.
  • Ef olían er of heit brenna bitarnir strax að utan en ná ekki að steikjast í gegn.
  • Olía og vatn fara aldrei vel saman. Sumir nota það ráð að skvetta með blautum fingri yfir olíuna. Ef kraumar í henni þá er hún orðin heit – varast að láta of mikið vatn í olíuna.
  • Olíu má nota oftar en einu sinni – gott að sía hana með kaffifilter eða elhúspappír þegar hún er orðin köld. Ég nota olíuna tvisvar til fjórum sinnum – háð því hversu mikið grugg er í henni.
  • Betra ef yfirborð pönnunnar/pottsins er ekki of þröngt og potturinn ekki of djúpur.
  • Ágætt að hreinsa deigafganga frá – annars brenna þeir.
  • Betra að setja minna magn í einu svo maður ráði betur við að steikja og missi síður tökin.
  • Ef verið er að djúpsteikja mikið magn er hægt að setja það sem er tilbúið í ofnskúffu og inn í 50-100° C heitan ofn á meðan djúpsteiking er kláruð.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert