Ostaslaufur sem bragð er af

Ljósmynd/María Gomez

Ostaslaufur hafa aldrei bragðast betur en þær gera hér enda vitum við vel að allt sem María Gomez á Paz.is gerir er upp á tíu!

Ostaslaufur eru sívinsælar og hér er búið að taka þær upp á næsta stig.

Ostaslaufudeigið 

 • 350 ml eða 3,5 dl ylvolgt vatn
 • 1 sveppasoðteningur 
 • 2 msk. sykur 
 • 20 gr. pressuger (fæst í mjólkurkæli í Hagkaupum og Fjarðarkaupum) 
 • 1/2 tsk. fínt borðsalt 
 • 2 msk. truffluolía (ég notaði frá Elle Esse úr Hagkaupum) ef þið viljið ekki trufflubragð má nota 2 msk. ólífulolíu í staðinn eða 1 msk. olífuolíu og 1 msk. truffluolíu til að fá bara keim
 • 500 gr. hveiti 

Fylling 

 • 250 gr. beikonkurl 
 • 1 askja af skinkumyrju 
 • 1 askja af beikonsmurosti 
 • Rifinn mozzarella-ostur 

Ofan á 

 • 1 msk. birkifræ
 • 2 msk. sesamfræ
 • 1 tsk. sykur (má sleppa)

Aðferð

Ostaslaufudeigið 

 1. Sjóðið vatn og setjið 1,5 dl af því í skál og setjið sveppasoðteninginn út í og leysið hann upp
 2. Bætið svo 2 dl köldu vatni saman við, til að fá rétt hitastig, ásamt sykri og geri og hrærið vel. Látið standa í 5 mín. eða lengur 
 3. Setjið hveiti og salt saman í hrærivélarskál og hrærið saman með hnoðaranum 
 4. Bætið svo gervatninu út í hrærivélarskálina og látið hnoðast 
 5. Bætið svo að lokum olíu saman við og hnoðið þar til deigið hefur hringað sig um krókinn í fallega kúlu
 6. Leggið viskastykki yfir skálina og látið hefast á volgum stað í 1 klst. 
 7. Gott er að útbúa fyllinguna meðan deigið hefast 

Fylling

 1. Steikið beikon kurlið létt í potti 
 2. Bætið svo skinkumyrju og beikonsmurosti saman við beikonið í pottinum og hrærið vel saman 
 3. Leyfið ostunum alveg að bráðna saman við beikonið og passið að allt sé vel blandað saman
 4. Gerið nú fræin sem eiga að fara ofan á með því að hræra birkifræum, sesamfæjum og sykri, ef þið notið hann, saman

Ostaslaufusamsetning

 1. Þegar deigið hefur hefast setjið þá hveiti á borð og leggið deigið þar ofan á, setjið ögn af hveiti líka ofan á deigið en ekki hnoða það neitt
 2. Fletjið deigið út í frekar þunnan og jafnan ferning ca. 40x50 cm og smyrjið fyllingunni yfir hann allan 
 3. Brettið næst hliðina af deiginu sem er næst ykkur inn að miðju og svo hina hliðina fjær ykkur inn að miðju á móti hinni. Getið séð aðferðina við það á Instagram hjá mér með því að ýta hér
 4. Skerið svo í 10 lengjur og snúið hverri lengju einu sinni fyrir miðju svona eins og þið séuð að skrúfa tappa 
 5. Raðið á bökunarplötu með bökunarpappír á og hitið ofninn á 200 °C blástur 
 6. Leggið stykki yfir ostaslaufurnar og látið hefast meðan ofninn hitnar eða í um 10 mínútur 
 7. Úðið svo yfir ostaslaufurnar með vatni og sáldrið fræblöndunni yfir og setjið smá meira í miðjuna á slaufunum 
 8. Bakist í 12-15 mínútur 
Ljósmynd/María Gomez
Ljósmynd/María Gomez
mbl.is