Strangheiðarlegt sælgæti sérhannað fyrir fullorðna

Jamie Laing.
Jamie Laing.

Sælgætisfyrirtækið Candy Kittens var stofnað árið 2012 af Jamie Laing og Ed Williams sem ákváðu að það væri tími til að skora á stóru sælgætisframleiðendurna og gera eitthvað algjörlega nýtt. Flestir töldu þá félaga fremur galna en engu að síður eyddu þeir næstu 18 mánuðum í að þróa hugmyndina um strangheiðarlegt sælgæti sem væri sérhannað fyrir fullorðna.

Maðurinn á bak við Candy Kittens er Jamie Laing en hann á sér nokkuð merkilega sögu. Langalangafi hans var Sir Alexander Grant sem stofnaði McVities-kexstórveldið. Laing kemur því úr vellauðgri fjölskyldu. Hann langaði að leggja fyrir sig leiklist og sótti í þeim tilgangi leiklistarskóla í Leeds. Að eigin sögn var hann að drepast úr leiðindum og hann áttaði sig á því að líklegast ætti það betur við hann að vera sjálfstætt starfandi og frumkvöðull. Hann hafði einhverju áður farið til New York þar sem hann álpaðist inn í sælgætisverslunina Dylan's Candy Bar sem er rekin af Dylan Lauren sem er dóttir Ralph Lauren. Laing segir það hafa verið magnaða upplifun. Fólk hafi verið að kaupa sér dýrindissælgæti fyrir tugi þúsunda og hann hafi hugsað með sér af hverju slíka verslun væri ekki að finna í Bretlandi.

Um þetta leyti kynnist hann Ed Williams sem er hönnuður og saman stofnuðu þeir Candy Kittens-fyrirtækið með það að markmiði að framleiða hágæða heiðarlegt sælgæti sem væri sérhannað fyrir fullorðna. Laing segir að betri meðeiganda en Williams sé ekki hægt að finna og þrátt fyrir að þeir séu afar ólíkir virðist þeir vega hvor annan fullkomlega upp.

Þrátt fyrir að hafa stofnað fyrirtækið var Laing þó ekki búinn að kveðja leiklistargyðjuna alfarið og árið 2011 gerðist hann hluti af raunveruleikaþættinum Made in Chelsea sem fjallar um líf vellauðugra ungmenna í London og nærsveitum. Þættirnir hafa notið mikilla vinsælda enda eru Bretar öðrum þjóðum fremri þegar kemur að sápukenndu raunveruleikasjónvarpsefni. Laing tók jafnframt þátt í danskeppninni Strictly Come Dancing í fyrra þar sem hann lenti í öðru sæti auk þess að hafa leikið lítil hlutverki í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Laing hefur sjálfur sagt að hann sé gagnslaus í 9-5 vinnu og frumkvöðlastarfið henti honum betur. Tengslanet hans hefur heldur ekki spillt fyrir en hann svarar þeim gagnrýnisröddum fullum hálsi sem kalla hann fordekraðan yfirstéttardreng. Hann hafi vissulega haft góðan meðbyr vegna fjölskylduauðæfanna sem hann sé þakklátur fyrir en velgengni Candy Kittens sé aðallega til komin vegna þrotlausrar vinnu þeirra sem að fyrirtækinu koma og trú á því að verið væri að framleiða framúrskarandi vöru.

Fékk aldrei sælgæti sem barn

Laing segist elska sælgæti og þá ást megi að stórum hluta rekja til þess að hann fékk aldrei sætindi sem barn. Hann brást illa við sykri og því fékk hann bara einn lítinn bita á sunnudögum. Hann segir að fyrir vikið hafi hann alltaf verið að láta sig dreyma um sætindi sem útskýri að öllum líkindum af hverju hann eigi sælgætisverksmiðju í dag. Hann hefur jafnframt breytt um áherslur í mataræðinu eftir að hann opnaði Candy Kittens því hann borði ekki lengur neinar dýraafurðir en vörur fyrirtækisins innihalda engar dýraafurðir og leggur áherslu á nota einungis sjálfbærar vörur í framleiðslunni.

Velgengni fyrirtækisins hefur verið mikil og tvöfaldaðist veltan milli ára í fyrra sem er töluvert. Í dag er varan seld um allt Bretland og er óðum að hasla sér völl víða um heim, þar á meðal hér á landi. Laing segist afskaplega stoltur af fyrirtækinu og því sem búið er að skapa. Vöxtur fyrirtækisins hafi farið langt fram úr björtustu vonum en það sem mestu skiptir sé að varan standi undir nafni sem algjört sælgæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert