Loksins kominn nýr ofn á Plútó

Þau gleðitíðindi berast vestan úr bæ að Plútó Pizza á Hagamel sé komin með nýjan og stærri ofn.

Að sögn Stefáns Melsted hjá Plútó Pizza mun nýi ofninn stórbæta þjónustuna og hraða afgreiðslutímanum.

„Fljótlega eftir að við opnuðum var nefnilega byrjaður að myndast ansi vænn flöskuháls við gamla ofninn og biðtími eftir pítsu á háannatíma orðinn verulega langur. Þrátt fyrir það voru viðskiptavinir þolinmóðir og sættu sig flestir við mikla bið og kunnum við þeim miklar þakkir fyrir þolinmæðina og tryggð við pítsurnar okkar. Það staðfestir einnig þá sýn okkar að nota gæðahráefni og gera deigið og sósuna hérna á staðnum en það tekur þrjá daga að búa deigið til. Við lentum í því fyrstu vikurnar að deigframleiðslan annaði ekki eftirspurn og þurftum við oft að loka snemma þar sem allt deig var búið. Við tvöfölduðum kæliplássið þá þegar og leystum úr deigvandanum en þá var næsta skref að auka afköstin á ofninum,“ segir Stefán en Vesturbæingar hafa verið afar hrifnir af Plútó enda eru þeir þekktir fyrir að halda mikla tryggð við fyrirtækin í hverfinu.

„Plútó Pizza hefur náð að festa sig í sessi með 18" New York-pítsur sínar sem seldar eru í heilu lagi og í svoköllum „slæsum“ eins og New York-búar kalla pítsusneiðar. Þetta er líka eins og við viljum hafa það; byrja smátt og sprengja utan af okkur frekar en að eyða tugum eða hundruðum milljóna í byrjun,“ segir Stefán og ljóst að aðdáendur Plútó munu gleðjast við tíðindin enda pítsurnar þar frábærar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert