Sætur sigur eftir langvinn veikindi hjá Garðari

Garðar Sveinn Tranberg.
Garðar Sveinn Tranberg. Ljósmynd/Saga Sig

Garðar Sveinn Tranberg, bakarameistari hjá Bakarameistaranum, kom, sá og sigraði með köku ársins á dögunum. Garðar, sem hefur starfað hjá Bakarameistaranum síðan árið 1997, hefur tekið þátt í keppninni ár hvert síðan 2002.

„Eftir að hafa verið í veikindaleyfi síðustu þrjú ár langaði mig að byrja að vinna aftur og ákveð að taka þátt í keppninni sem endar með sigri, þannig að það má með sanni segja að þetta sé sætur sigur í kjölfar veikindanna. Það gefur manni mikið,“ segir Garðar Sveinn sem eins og áður sagði hefur starfað hefur fyrir Bakarameistarann í 24 ár.

Spurður hvort margar tilraunir hefðu verið gerðar til að fullkomna sigursælustu kökuna sagðist hann aðeins hafa gert eina tilraun.

„Ég hugsaði um það í nokkra daga hvernig ég vildi láta Hraunið (sem var þema kökunnar í ár) njóta sín og datt þá í hug að mylja það og blanda smjöri saman við líkt og tíðkast þegar verið er að búa til botn í ostaköku. Svo ákvað ég að setja karamellumús sem næsta lag og hafði þá hnetukröns í músinni. Því næst ákvað ég að vera með ástaraldin- og ferskjufrómans og punkturinn yfir i-ið er svo toffie-karamellukremið sem þekur kökuna.“

Viðbrögðin létu ekki á sér standa þegar Garðar Sveinn bauð starfsfólki Bakarameistarans að smakka þessa fyrstu og einu tillögu að köku ársins.

„Það báðu allir um aðra sneið, þannig að þá vissi ég að ég væri með eitthvað gott í höndunum.“

En hvaða sætmeti þykir þér best?

„Það er skúffukakan hennar mömmu. Hún situr í minningunni og er alltaf uppáhalds. Það er bara eitthvert „töts“ sem mömmur hafa. Engin uppskrift, en alltaf best.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert