Freyja setur á markað nýjar súkkulaðiplötur

Freyja hefur undanfarið eitt og hálft ár staðið í ströngu við þróun á nýju sælgæti, Freyju mjólkursúkkulaðiplötu með Djúpum og Freyju mjólkursúkkulaðiplötu með Sterkum Djúpum.


Langur tími fór ekki síst í að hanna nýjar umbúðir fyrir súkkulaðiplöturnar. „Við lögðum gríðarlega mikið í nýju umbúðirnar," segir Pétur Thor, framkvæmdastjóri Freyju. „Við vildum að umbúðirnar endurspegluðu arfleifð Freyju. Freyja er elsta starfandi sælgætisgerð á Íslandi stofnuð árið 1918 og Freyja hefur framleitt súkkulaði frá upphafi. Við leggjum líka gríðarlega mikið upp úr handbragði og íslenskum hefðum í framleiðsluferlinu, ekki bara í súkkulaðigerð heldur líka við lakkrísgerðina okkar.“ Nýju umbúðirnar eru innblásnar af 103 ára umbúðasögu Freyju alveg frá fyrstu konfektöskjunum, núverandi pokalínu Freyju og ekki síst tíglunum sem hafa prýtt Freyju Hríspokana frá fyrstu tíð.



Varan kom á markað í lok síðustu viku og hefur salan gengið vonum framar samkvæmt Pétri Thor. „Við hjá Freyju erum öll afskaplega ánægð og þakklát fyrir ótrúlega góðar móttökur á nýju plötunum okkar. Við erum líka svo glöð að lesa og sjá viðbrögð fólks við bragðgæðunum. Við höfum lagt mikið í þessar nýju vörur og erum ótrúlega stolt af útkomunni. Plöturnar seldust upp í velflestum verslunum og einnig hér hjá okkur og við erum að vinna hörðum höndum að því að dreifa nýframleiddu magni í verslanir.“

„Grunnurinn að nýju plötunum er hágæðamjólkursúkkulaðið sem Freyja notar í sínar súkkulaðivörur. Við súkkulaðið er blandað örlitlum Djúpum annars vegar og örlitlum Sterkum Djúpum hins vegar og eru allar plöturnar vel útilátnar hvað varðar magn af Djúpum og Sterkum Djúpum. Framleiðslan á þessum plötum er langt og strangt ferli þar sem hver plata þarf að ganga í gegnum mörg framleiðslustig þangað til varan verður klár til pökkunar,“ segir Pétur.


„Meginstoðir Freyju eru framúrskarandi gæði, einstakt handbragð og aldagömul hefð. Þetta eru stoðir fyrirtækisins og eitthvað sem við erum afar stolt af og í raun ástæða fyrir langlífi Freyju. Við vildum að þessar nýju súkkulaðiplötur endurspegluðu þær stoðir, útlitslega en ekki síst með einstökum bragðgæðum,“ segir Pétur Thor að lokum stoltur.

Ljósmynd/Aðsend
Pétur Thor með nýja súkkulaðið.
Pétur Thor með nýja súkkulaðið. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert