100% beikonborgari kominn í verslanir

Ljósmynd/Aðsend

Það er Hamborgarafabrikkan sem á heiðurinn af borgaranum sem þróaður var í samstarfi við Stjörnugrís. Um er að ræða 100% beikonborgara og er hann kominn í sölu í verslunum Krónunnar.

„Þetta er mjög djörf og skemmtileg hugmynd. Beikonborgarar eru til á öllum hamborgarastöðum, en hugtakið stendur fyrir nautahamborgara með stökku beikoni ofan á. Okkur langaði að taka þessa hugmynd enn lengra,“ segir Jóhannes Ásbjörnsson, talsmaður Gleðipinna og Hamborgarafabrikkunnar.

Útkoman er eitthvað sem unnendur beikons taka eflaust fagnandi. Beikonborgarinn er gerður úr reyktri svínasíðu sem er hökkuð, svo er bætt í hana chipotle-kryddi og cheddar-osti. Sum sé 100% beikonborgari á grillið. 

Þú grillar beikonborgarann í raun eins og hamborgara. Við mælum svo með Laddasósunni, sem er gamla, góða, bleika hamborgarasósan í nýrri uppfærslu, steiktum sveppum og spældu eggi á toppinn. Svo má líka steikja hann á pönnu og gera hann að stjörnunni í brönsinum,“ bætir Jói við. 

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is