Héldu tímamótaveislu fyrir vinkonurnar

Frá vinstri: Lilja Jónsdóttir, Sigríður Snævarr, Marta Jónsdóttir, Nína Björk …
Frá vinstri: Lilja Jónsdóttir, Sigríður Snævarr, Marta Jónsdóttir, Nína Björk Jónsdóttir og Kristín A. Árnadóttir. Ljósmynd/Albert Eiríksson

Albert Eiríksson er maðurinn sem veit allt um hvernig á að halda lekker matarboð og því skyldi engan undra þegar hann birti myndir á blogginu sínu af þessari framúrskarandi veislu sem vinkonurnar Kristín A. Árnadóttir og Sigríður Snævarr slógu upp með litlum fyrirvara fyrir samstarfskonur sínar.

Veislan var með alþjóðlegum brag og átti maturinn rætur að rekja til Frakklands, Ísraels og Marokkós. Einstaklega vel útfært og augljóslega ekki leiðinlegt boð að vera boðinn í.

„Við leggjum til að þið gerið langa sögu stutta og í stað þess að þvælast um allan bæ eftir hráefninu þá sé farið beint í Melabúðina og þar fæst allt sem þarf,“ segja þær stöllur sem kunna að skapa létta og hressandi stemningu í boðum.

Matseðill Kristínar og Sigríðar var sko ekki af verri endanum:

 • Grillaður franskur geitaostur með hunangi, límónuberki og mintu.
 • Marokkósk kjúklingatagína með ólífum og súrsuðum sítrónum.
 • Bökuð jarðarber með jógúrtrjóma og mintu að hætti Ottolenghis.
Ljósmynd/Albert Eiríksson

Grillaður franskur geitaostur með hunangi, límónuberki og mintu, borinn fram á salatbeði

Skerið geitaostinn niður í sneiðar, raðið á bökunarpappír, setjið vel kúfaða teskeið af góðu hunangi á hvern ostbita og bakið við 175°C í nokkrar mínútur. Setjið rúkkóla á litla diska, steinkið með eðalolífuolíu, saltið og látið osta yfir. Saxið fínt mintu og stráið yfir.
Ljósmynd/Albert Eiríksson

Marokkósk kjúklinga-tagína með ólífum og súrsuðum sítrónum

Fyrsta stig:

 • 1 kjúklingur í bitum
 • 5 fínsöxuð hvítlauksrif
 • 1/2 tsk. engiferduft
 • 1 tsk. sæt paprika
 • 1/2 tsk. malað kummín
 • 1/2 tsk. túrmerik
 • salt og pipar

Þessu er blandað saman og kjúklingur, einn eða tveir, sem hlutaðir eru í bita, fá nudd með kryddblöndunni. Þá er kjúklingurinn settur til hliðar og marineraður nokkra tíma og kannski yfir nótt. Það er þægilegast.

Annað stig:

 • Ólífuolía til steikingar
 • 3 laukar, saxaðir
 • kanilstöng
 • 8-10 kalamata-ólífur – steinhreinsaðar og skornar í tvennt
 • 8-10 grænar ólífur – steinhreinsaðar og skornar í tvennt
 • 3 súrsaðar sítrónur (preserved lemons)

Olían er hituð í potti eða pönnu, kjúklingabitarnir steiktir vel frá öllum hliðum. Færðir á fat. Laukurinn er steiktur í u.þ.b. 15 mínútur í sama potti/pönnu við vægan hita. Laukurinn er þá settur í marokkósku tagínuna (eða í eldfast mót) og kjúklingabitunum raðað ofan á laukinn. Kanelstöng komið fyrir í fatinu hjá lauk og kjúklingabitum. Dreifið ólífum yfir kjötið. Sneiðið sítrónurnar fínt og dreifið jafnt yfir kjúklingana, laukinn og ólífurnar. Þegar hér er komið sögu lítur þetta mjög fallega út og girnilega.

Þriðja stig: Búa til soð úr 1 bolla af kjúklingakrafti og safanum af hálfri sítrónu. Hellt yfir réttinn ásamt slatta af smátt sneiddri ítalskri steinselju (þessi flata). Nú er tímabært að setja lokið á tagínuna eða pottinn og setja í ofninn. Láta dúrra við meðalhita í klukkustund eða svo. Strá fínt saxaðri steinselju yfir áður en borið er fram.

Ljósmynd/Albert Eiríksson

Tabbouleh

 • 1 b perlubygg*
 • 4 tómatar
 • 2 skalottulaukar
 • 1 b söxuð steinselja
 • 1 dl söxuð minta
 • 3-4 msk. sítrónusafi
 • 1 dl ólífuolía
 • 1 tsk. allrahanda
 • salt og svartur pipar

Sjóðið búlgurnar samkvæmt leiðbeiningu á pakkningu – látið kólna.
Látið búlgurnar í skál, saxið tómata og lauk og setjið saman við. Bætið mintu, steinselju, olíu og kryddi saman og blandið vel saman.

*Íslenska byggið frá Vallanesi, perlubyggið er soðið í korter, gjarnan með brytjuðum vorlauk saman við, og er bæði mjög hollt og gott.

Ljósmynd/Albert Eiríksson

Babaganoush (eggaldinmauk) er eggaldinmauk kennt við Líbanon þótt það eins og annað hér sé algengt í mismunandi útfærslum víða í Mið-Austurlöndum.
Tabbouleh (tómata-, steinselju-, mintu- og bulgur-salat) er líka arabískt salat, frá Mið-Austurlöndum og hægt að útfæra á ólíkan hátt. Sjá að neðan um helstu hráefni, en við mælum með að þið gúglið og veljið þannig.

Babaganoush

 • 3 lítil eggaldin
 • 3 hvítlauksrif, söxuð smátt
 • 3 msk. sítrónusafi (eða rúmlega það)
 • 1/4 b tahini
 • 3/4 b extra virgin ólífuolía – og aðeins meira til að pensla eggaldinið
 • 3-4 msk. söxuð steinselja
 • 3/4 tsk. salt
 • 1/4 tsk. kummín
 • reykt paprika

Það er gott að hafa þurrt brauð, flatbrauð eða pítubrauð á borðinu til þess að dýfa í.

Ljósmynd/Albert Eiríksson

Sumac-bökuð jarðarber með jógúrtrjóma

 • 1/2 b rjómi, léttþeyttur
 • 1 b grísk jógúrt
 • 1 msk. sykur
 • smá salt
 • börkur af einni sítrónu
 • 2 msk sítrónusafi
 • 600 g jarðarber, skorin í tvennt
 • 1 1/2 tsk. sumac krydd
 • 1/2 b fersk minta
 • 1 vanillustöng
 • 1 msk. sykur.

Hrærið saman jógúrt, sykri, salti, rjóma og sítrónuberki.

Setjið jarðarber í skál, stráið sumac og mintu yfir. Skerið vanilluna eftir endilöngu, skafið fræin úr og blandið saman við jarðarberin ásamt sítrónusafa. Stráið sykri yfir. Setjið allt í eldfast form og bakið við 175°C í um 20 mín. Hrærið varlega í eftir tíu mín. Látið kólna.

Setjið jarðarberin í skálar, jógúrtrjómann yfir. Skreytið með sítrónuberki, mintu (og ferskum jarðarberjum).

mbl.is