Öndvegisveisla í Önundarfirði

Frá vinstri: Sigurður Oddur, Guðrún Hrafnhildur, Sigríður Júlía, Steinþór, Þórður …
Frá vinstri: Sigurður Oddur, Guðrún Hrafnhildur, Sigríður Júlía, Steinþór, Þórður Logi og Bergþór. Ljósmynd/Albert Eiríksson

Á bænum Hjarðardal Ytri í Önundarfirði búa hjónin Sigríður Júlía Brynleifsdóttir skógfræðingur og Steinþór Bjarni Kristjánsson bóndi og skrifstofustjóri, af flestum eru þau betur þekkt sem Sigga Júlla og Dúi.

Gourmet-sérfræðingunum Bergþóri Pálssyni og Alberti Eiríkssyni var boðið í mat á dögunum og þótti maturinn algjörlega framúrskarandi  svo ekki sé minnst á félagsskapinn. Í matinn var meðal annars fiskur af ýmsu tagi frá Fisherman, en að sögn Alberts er allt frá því fyrirtæki fyrir matgæðinga.

Ljósmynd/Albert Eiríksson

Í forrétt fengum við reyktan og grafinn lax með með graflax- og sinnepssósu. Allt góðgætið er frá Fisherman á Suðureyri.

Ljósmynd/Albert Eiríksson
Ljósmynd/Albert Eiríksson

Þorskhnakkar í sinnepskremi með kartöflumús
Sparifiskurinn á heimilinu! Dúi sá þessa uppskrift í Mogganum snemma á þessari öld og sá strax að þetta væri eitthvað

Steiktur fiskur
1 kg Fisherman-þorskhnakkar
Veltið upp úr hveiti, steikið í smjöri og smá olíu á pönnu, setjið þá í ofn þar til það er eldað í gegn.

Sinnepskrem:

 • ½ lítri rjómi
 • 4 msk. dijonsinnep
 • 2 msk. hlynsýróp
 • 1 kjúklingateningur
 • salt og pipar eftir smekk
 • soðið niður um 1/3 við vægan hita

Kartöflumús:

 • 5 bökunarkartöflur, bakaðar í ofni
 • 3 msk. brætt smjör,
 • 5 hvítlauksrif
 • 2 greinar ferskt rósmarín
 • 1 tsk. þurrkað timjan
 • salt og pipar eftir smekk

Bakið kartöflurnar í ofni á hefðbundinn hátt, smjör, hvítlaukur og krydd brætt saman og kartöflurnar stappaðar út í.

Ljósmynd/Albert Eiríksson

Döðlukaka með heitri karamellusósu
„Þessi kaka er alltaf mjög vinsæl hér á heimilinu og ég geri hana mjög gjarnan hvort sem er í kaffiboði eða sem eftirrétt. Í mörg ár hef ég boðið upp á hana á Þorláksmessu fyrir gesti og gangandi,“ segir Sigga.

Kakan:

 • 235 g döðlur
 • 1 tsk matarsódi
 • 120 g mjúkt smjör
 • 5 msk sykur
 • 2 egg
 • 3 dl hveiti
 • ½ tsk salt
 • ½ tsk vanilludropar
 • 1 og 1/3 tsk lyftiduft

Setjið döðlur í pott og látið vatn fljóta yfir. Látið suðuna koma upp, slökkvið á hitanum og látið döðlumaukið bíða í pottinum í 3 mín. Bætið matarsódanum saman við. Þeytið smjör og sykur vel saman og bætið eggjunum í, einu í senn. Blandið síðan hveiti, salti og vanilludropum saman við. Bætið lyftiduftinu út í, ásamt ¼ bolla af döðlumaukinu, og hrærið varlega í. Blandið að lokum afganginum af döðlumaukinu út í. Smyrjið u.þ.b. 8 cm hátt lausbotna form, sem er 24 cm í þvermál, vel með smjöri og setjið deigið í það. Hitið ofninn í 180°C og bakið í 30-40 mínútur eða þar til miðjan er bökuð. Hvolfið kökunni á tertudisk og berið hana fram volga eða kalda með sósunni og léttþeyttum rjóma. Einnig má skreyta kökuna með döðlum, jarðarberjum eða valhnetum.

Karamellusósan:

 • 120 g smjör
 • 115 g púðursykur
 • ½ tsk vanilludropar
 • ¼ bolli rjómi

Setjið allt hráefnið saman í pott og látið suðuna koma upp.

mbl.is