Pastað sem getur bjargað geðheilsunni

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Oft er þörf en nú er nauðsyn gott fólk! Hér erum við með stórbrotna pastauppskrift fyrir sanna sælkeranagga sem þrá eitthvað gott í kvöldmat. Við erum að tala um hina heilögu þrenningu: Pasta, rjóma og beikon!

Það er engin önnur en Berglind Hreiðars á Gotteri.is sem á þessa uppskrift og hafi hún kærar þakkir fyrir.

Rjómalagað tortellini

  • 2 x pastella tortellini með skinku
  • 200 g stökkt beikon
  • 1 lítill brokkolíhaus
  • 200 g sveppir (blanda af portobello og shiitake)
  • 2 hvítlauksgeirar (rifnir)
  • 1 piparostur
  • 500 ml rjómi
  • ólífuolía til steikningar
  • salt, pipar og hvítlauksduft
  • parmesanostur (til að rífa yfir)

Afðerð:

  1. Byrjið á því að skera brokkolí og sveppi niður og leggja til hliðar.
  2. Næst má skera stökkt beikonið smátt og geyma á disk til hliðar (mér finnst best að grilla það í ofninum og leggja á eldhúspappír til að mesta fitan leki af).
  3. Byrjið síðan á því að steikja brokkolíbita upp úr vel af olíu og krydda til eftir smekk. Setjið nokkrar matskeiðar af vatni á pönnuna í lokin ef þið viljið mýkja það aðeins betur, takið síðan af pönnunni og geymið í skál.
  4. Steikið nú sveppina á sömu pönnu þar til þeir mýkjast ásamt hvítlauknum og kryddið til, setjið síðan í skálina með brokkolíinu.
  5. Nú má útbúa sósuna á pönnunni með því að rífa piparostinn og blanda saman við rjómann. Hitið og hrærið þar til osturinn er bráðnaður.
  6. Næst má sjóða pastað (það tekur aðeins 3 mínútur) og blanda grænmetinu saman við rjómasósuna.
  7. Þegar pastað er klárt má láta renna af því og bæta því síðan, ásamt beikoninu, á pönnuna og blanda vel saman.
  8. Gott er að bera pastað fram með vel af rifnum parmesanosti.
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert