Ragnheiður hannaði eldhúsið með pappaspjöldum

Þetta stórkostlega bjarta og fallega eldhús má finna í Norðurmýrinni.
Þetta stórkostlega bjarta og fallega eldhús má finna í Norðurmýrinni. Mbl.is/Mynd aðsend

Við litum inn í einstaklega smekklegt eldhús á Höfuðborgarsvæðinu, þar sem innréttingin er kremuð og ísskápurinn eins og mjúkur Royal búðingur á litinn.

Við erum stödd í eldhúsi í Norðurmýrinni, en hér býr Ragnheiður Bogadóttir ásamt fjölskyldu sinni. Maðurinn hennar Ragnheiðar er matreiðslumeistari og sér um alla matargerð – og því er veislumatur öll kvöld á heimilinu, sem hljómar eins og góð tónlist í eyrum undirritaðar.

Íbúðina kaupa þau árið 2006 sem þá var í sínu upprunalega útliti, sem heillaði húsráðendur mikið. Samkvæmt fyrra skipulagi þá var eldhúsið áður í mjög litlu herbergi en þegar þau festa kaup á íbúðinni, þá var búið að færa það í bjartara og stærra rými sem áður var stofa. „Við létum eldhúsinnréttinguna sem fyrir var standa og poppuðum hana aðeins upp með því að taka niður efri skápana, settum nýjar króm höldur og króm fætur, tókum sökkulinn undan og pússuðum borðplötuna. Og „vola“, komin ný eldhúsinnrétting fyrir lítinn pening,“ segir Ragnheiður.

Ragnheiður lýsir stílnum sem breskum-amerískum sveitasetursstíl. En hjá má einnig …
Ragnheiður lýsir stílnum sem breskum-amerískum sveitasetursstíl. En hjá má einnig sjá klassíska ljósahönnun frá Louis Poulsen og stóla eftir Arne Jacobsen. Mbl.is/Mynd aðsend

Var ekki með eldhús í nokkra mánuði
Það stóð alltaf til að fara í frekari framkvæmdir á eldhúsi og baðherbergi sem kölluðu á nýjar vatnslagnir, en sú framkvæmd óx Ragnheiði þó í augum þar sem taka þurfti frá alla ofna og innréttingar – fyrir utan hversu kostnaðarsöm slík framkvæmd er. „Árið 2016, eftir að vera búin að taka í gegn skolp og dren í húsinu og smá sjóuð í stórframkvæmdum og álaginu sem því fylgir því, þá ákvað ég að ráðast í blessuðu vatnslagnirnar,“ segir hún og hlær. „Ég get alveg viðurkennt að sú framkvæmd tók smá á, enda mikil læti meðan á því stóð og ekki var hægt að vera í íbúðinni á meðan. Það voru þrír iðnaðarmenn sem unnu við þetta – því var mikið fjör og hamagangur, og allir ofnar og innréttingar voru teknar frá veggjum. Það var því alveg rétt ákvörðun og hentugt að gera þetta í þessari röð. Með hjálp fjölskyldu og góðra vina var öllu hent út og keyrt beint á Sorpu - og eftir stóðu tvö berstrípuð rými. Við byrjuðum fyrst á að taka baðherbergið í gegn, en eftir þá framkvæmd tókum við smá pásu. Við vorum þar af leiðandi eldhúslaus í nokkra mánuði,“ segir Ragnheiður.

Ragnheiður var búin að festa kaup á vaskinum löngu áður …
Ragnheiður var búin að festa kaup á vaskinum löngu áður en hún réðst í framkvæmdir í eldhúsinu. Mbl.is/Mynd aðsend

Hannaði eldhúsið sjálf með pappaspjöldum
Ragnheiður ákvað að leita ekki til fagaðila þegar kom að hönnun eldhússins – heldur tók hún áskoruninni og sá tækifærið í að gera eitthvað alveg frá grunni eftir sínu höfði. Hún skoðaði mikið af blöðum og á Pinterest til að fá góðar hugmyndir. „Þar sem ég var ekki með neitt hönnunarteikniforrit þá klippti ég út pappa og raðaði og límdi á vegginn, svona til að átta mig á staðsetningu á innréttingunni og hvernig hún kæmi út, sem var mjög skemmtilegt,“ segir Ragnheiður sem lét einnig bora og þræða fyrir nýjum rafmagnsdósum, tenglum og loftljósum. Og segir það hafa verið skemmtilegt verkefni að ákveða hvar og hversu margir tenglar og dósir ættu að vera í rýminu.
„Ég var búin að ákveða löngu áður en ég fór í eldhúsframkvæmdirnar í hvaða stíl ég vildi hafa rýmið. Ég vildi framkalla stemningu í anda gamalla breskra og amerískra sveitasetra. Það sem er einkennandi fyrir þennan stíl eru massívir stórir hvítir vaskar og keramík veggflísar. Ég var búin að kaupa vaskinn löngu áður en ég reif gamla eldhúsið út. Eins var ég búin að skoða og spá í hvernig ég vildi hafa flísarnar, því hvítar flísar eru ekki bara hvítar flísar - þær geta verið í svo mismunandi glansáferðum og hvíti liturinn misjafn. Ég fann loksins réttu flísarnar í Álfaborg sem náðu fram þessu gamaldags útliti og stemningu sem ég sóttist eftir. Þá valdi ég dekkstu fúguna til að ramma þetta vel inn og lét svo flísarnar flæða yfir allan vegginn og kringum hurðina – og sé ekki eftir því, það gefur rýminu skemmtilegt útlit”, segir Ragnheiður.

Rýmið er bjart og fallegt, en hægt er að ganga …
Rýmið er bjart og fallegt, en hægt er að ganga inn í eldhúsið á tveimur stöðum. Innréttingin er frá Eirvík og borðplatan er frá Rustica. Veggljósin voru keypt á E-bay og blöndunartækin eru SMEG. Mbl.is/Mynd aðsend

Innréttingin kremuð og ísskápurinn eins og Royal búðingur
Eldhúsinnréttingin er ótrúlega falleg, en Ragnheiður segist vera mikið fyrir náttúruleg efni og þá frekar gegnheilt en spónlagt – það skapi hlýju og notalega stemningu. Eftir nokkra leit fann hún réttu innréttinguna í Eirvík, úr gegnheilli eik þar sem viðaræðarnar ná í gegn. „Það sem heillaði mig við þá innréttingu var sérstaklega liturinn sem er kremaður og fulningarnar á hurðunum skapa þessa gamaldags og rómantíku stemningu,“ segir Ragnheiður.

„Varðandi eldhúsinnréttingar þá finnst mér borðplatan alltaf setja punktinn yfir i-ið, útlit hennar sem skapar og nær fram heildarútlitinu. Ég sá fyrir mér að hafa hana mjög þykka og nánast bara beint af trénu, lítið unna. Ná þessu sjarmerandi og náttúrulega rustic útliti. Ég var búin að fara á þó nokkra staði en fannst allar borðplöturnar vera of mikið unnar. Þá var mér bent á að fara í Rustica – og þar var ég komin á rétta staðinn. Heilu fermetrarnir af viðar plönkum! Ég valdi gegnheila eik sem ég lét létt pússa og olíubar hana svo. Mér finnst svo notalegt að strjúka yfir sprungur og kvista,” segir Ragnheiður.

Ísskápinn keypti Ragnheiður árið sem hún flutti inn og setur mikinn svip á eldhúsið. „Eldhúsið er blanda af sveitabýlisstemningu og það sem ég kýs að kalla Royal búðings lúkk – með þessum mjúku línum og pastellitum sem sjá má á ísskápnum, eldavélinni og brauðristinni. Þegar ég var að velja hluti inn í eldhúsið festist ég svolítið í því að allt þurfti að passa við krómið á ísskápnum. En svo sá ég að það kom skemmtilegra út að bara blanda öllu saman, gylltu, króm, brassi og brons - samtíningur af öllu og allt leyfilegt,” segir Ragnheiður og þar erum við fyllilega sammála, enda er útkoman æðisleg.

Eldavélin og háfurinn eru einnig í þessum retro stíl, og …
Eldavélin og háfurinn eru einnig í þessum retro stíl, og hvorutveggja er frá Progastro. Mbl.is/Mynd aðsend

Miðdepillinn á heimilinu
Rýmið er stórt og bjart og nánast opið í allar áttir. Að sögn Ragnheiðar er það miðdepillinn í íbúðinni og klárlega hjarta heimilisins þar sem fjölskyldan noti rýmið mikið. En litla dóttirin á heimilinu skottast um í eldhúsinu á meðan þau foreldrarnir sýsla við matargerðina. „Notalegast finnst mér að sitja við eldhúsborðið með kaffibolla í hönd, horfa í átt að flísunum, sérstaklega þegar morgunsólin er farin að hækka á lofti og varpar skemmtilegri birtu á þær. Þá hlýnar manni í hjartanu,“ segir Ragnheiður. Aðspurð segir Ragnheiður lítið hafa verið um gestagang sökum covid, eins eru þau búin að selja íbúðina og það styttist í afhendingu. „Með hækkandi sól og vor í lofti er aldrei að vita nema maður nái að halda smá eldhúskveðju-partí, en það verður að segjast að ég fæ sting í hjartað við tilhugsunina að vera fara héðan“, segir Ragnheiður að lokum.

Lýsandi ástand þegar framkvæmdirnar stóðu yfir.
Lýsandi ástand þegar framkvæmdirnar stóðu yfir. Mbl.is/Mynd aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert