Kjúklingaborgari með girnilegasta meðlæti í heimi

Ljósmynd/Hildur Rut

Kjúklingur, fetaostur, avókadó og sætar kartölfur! Þessi alslemma er ekki bara óþolandi bragðgóð heldur er hún líka svo holl og dásamleg að það hálfa væri nóg.

Það er Hildur Rut sem á heiðurinn að þessari snilld en hún notar sætar kartöflur í staðinn fyrir brauð.

„Sætar kartöflur og kjúklingur passa sérlega vel saman. Þessi réttur er bæði mjög bragðgóður og í hollari kantinum. Ég nota sætar kartöflur í staðinn fyrir brauð og fylli með kjúklingi, fetaosti, avókadó, salati, tómatsneiðum, spírum og ljúffengri sósu. Þetta er einfalt og þægilegt að útbúa og tekur um 30 mínútur. Það er þægilegt að undirbúa meðlætið á meðan kjúklingurinn og sætu kartöflurnar bakast í ofninum," segir Hildur og við verðum að prófa!

Sætkartöflu- og kjúklingaborgari

Fyrir 2

  • 1 stór sæt kartafla
  • Ólífuolía
  • 2 kjúklingabringur
  • Salt og pipar
  • Fajita krydd
  • 1 stórt avókadó, stappað
  • Salat
  • Fetakubbur
  • Tómatur, skorinn í sneiðar
  • Alfa alfa spírur

Sósa

  • 3 msk. majónes
  • 1-2 tsk sambal oelek

Aðferð

  1. Skerið kjúklingabringurnar í tvennt svo úr verði fjórar sneiðar úr tveimur bringum. Berið ólífuolíu á þær og kryddið með salti, pipar og fajita kryddblöndu. Bakið í ofni við 190°C í 15 mínútur.
  2. Stappið fetakubbinn (magn eftir smekk) og dreifið yfir kjúklinginn. Setjið kjúklinginn aftur inn í ofn og bakið í ca. 10-15 mínútur eða þar til hann er orðinn fulleldaður.
  3. Skerið sætu kartöfluna í átta sneiðar. Penslið olíu á þær og kryddið með salti og pipar.
  4. Leggið þær á ofnplötu sem er þakin bökunarpappír og bakið í 20 mínútur á 190°C.
  • Takið kartöflusneiðarnar úr ofninum, smyrjið fjórar sneiðar með avocado og dreifið salati yfir.
  • Setjið kjúklinginn ofan á, tómatsneið, sósu, spírur og í lokin leggið sneið af sætri kartöflu ofan á. Mæli með að gera tvo borgara á mann.
Ljósmynd/Hildur Rut
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert