Opna Mathöll á Selfossi

Átta nýir veitingastaðir, meðal annars Flatey pizza og Smiðjan brugghús, verða í nýrri mathöll sem verður opnuð í sumar í endurreistu Mjólkurbúi Flóamanna í miðbæ Selfoss. Einnig verða þarna ný vörumerki, eins og tacostaðurinn El Gordito og Pasta Romana.

Í Mjólkurbúinu verður sömuleiðis bjórgarður, vínbar og stærðarinnar matar- og upplifunarsýning sem fengið hefur nafnið Skyrland.

Vignir Guðjónsson, framkvæmdastjóri Sigtúns Þróunarfélags, sem er í forsvari fyrir verkefnið, segir að Mjólkurbúið nýja hafi frá upphafi verið hugsað sem samkomustaður fyrir heimafólk á Selfossi og gesti, erlenda sem innlenda. „Mjólkurbúið er hjartað í þessum fyrsta áfanga nýs miðbæjar. Húsið er afar tignarlegt og blasir við þegar komið er yfir Ölfusárbrúna. Við höfum fulla trú á að Mjólkurbúið verði eitt helsta kennileiti og aðdráttarafl Suðurlands,“ segir Vignir.

Húsið var hannað af Guðjóni Samúelssyni og upphaflega byggt á Selfossi árið 1929 en rifið aðeins 25 árum síðar. Endurbyggt húsið er hið stærsta í nýjum miðbæ Selfoss, um 1.500 fermetrar á þremur hæðum, sem tengjast saman í miðrými með háum bogadregnum gluggum. Einungis eitt veitingarými af átta er óráðstafað, en áætlað er að dyrnar í Mjólkurbúinu opni í byrjun júní.

Innblástur í söguna

Vignir segir mikið lagt í hönnun og alla umgjörð í Mjólkurbúinu. Innanhússhönnun er í höndum Hálfdánar Pedersen, sem hannað hefur nokkra af vinsælustu veitingastöðum landsins, svo sem Snaps, Kex og Sumac. Þórður Orri Pétursson sér um lýsingu, en hann og Hálfdán hafa unnið mikið saman að undanförnu, t.d. við endurhönnun Þjóðleikhússins. Þá er leikmyndahönnuðurinn Snorri Hilmarsson aðalhönnuður Skyrlands. „Það má segja að hver hæð og hvert rými hafi sinn blæ. Hráar verksmiðjur fyrri tíma eru ákveðin fyrirmynd, en innblástur er einnig sóttur í verk Guðjóns Samúelssonar. Til dæmis eru hvítar flísar áberandi og lögnin á þeim sambærileg því sem við þekkjum úr Sundhöll Reykjavíkur, “ segir Vignir ennfermur.

Auk Mathallarinnar verða fleiri veitingastaðir í nýja miðbænum og nöfn þeirra verða gerð opinber á næstunni, að sögn Vignis.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert