Opna glæsilegustu mathöll landsins í miðbænum

Eins og greint hefur verið frá á mbl.is stendur til að breyta gamla Pósthúsinu í mathöll á næstunni en mikil leynd hefur hvílt yfir áætlunum þar um og hverjir standa að verkinu. 

Nýja mathöllin fær nafnið Pósthús Mathöll sem verður að teljast vel til fundið og það eru þungavigtarmenn í veitingageiranum sem standa að henn. Fremstir þar í flokki eru bræðurnir Ingvar og Hermann Svendsen sem hafa rekið og átt fjölda veitingastaða hérlendis, auk Þórðar Axel Þórissonar og Leifs Welding en Leifur hefur hannað marga af flottustu veitingastöðum landsins og má því búast við að Pósthúsið verði mikið fyrir augað. 

Byggð verður 140 fermetra glerbygging í porti gömlu lögreglustöðvarinnar sem verður hluti af Mathöllinni en alls verða tíu veitingastaðir og einn glæsilegur kokteilbar í höllinni. Að sögn Leifs verður hönnunin innblásin af miðjarðarhafinu og mikið gert upp úr gleði og stemningu, fyrir utan auðvitað framúrskarandi mat.

„Pósthús Mathöll verður mathöll sem ekki á sína líka á Íslandi og þótt víðar væri leitað. Þetta verður ekki hefðbundin Mathöll heldur ein stór gleðisprengja sem þú vilt ekki yfirgefa, hér mun fólk vilja borða og skemmta sér allan liðlangan daginn fram á nótt,“ segir Leifur Welding hönnuður og einn eiganda mathallarinnar.  

„Við stefnum á að opna í lok ársins með pompi og prakt. Við erum núna að leita að áhugasömum rekstraraðilum í þau pláss sem ekki eru þegar farin,“ segir Þórður Axel Þórisson, framkvæmdastjóri og einn eiganda en áhugasömum aðilum er bent á að hafa samband við posthusmatholl@posthusmatholl.is.

Myndirnar hér að neðan eru frá THG arkitektum. 

- - -

Fylgstu með Mat­ar­vefn­um á In­sta­gram og Face­book. Enda­laus æv­in­týri, hug­mynd­ir, skemmti­leg­ir leik­ir og allt það heit­asta heita ...

Svo megið þið endi­lega tagga okk­ur á In­sta­gram þegar þið eruð að elda eitt­hvað spenn­andi @mat­ur.a.mbl

Ljósmynd/THG arkitektar
Ljósmynd/THG arkitektar
Ljósmynd/THG arkitektar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert