Ómótstæðilegt hvítlauks-aioli frá Mr. Joy

Mr. Joy deilir með okkur uppskrift að vinsælu hvítlauks-aioli sem …
Mr. Joy deilir með okkur uppskrift að vinsælu hvítlauks-aioli sem þau búa til sjálf á staðnum. Mbl.is/Árni Sæberg

Það er silkimjúkt og ómótstæðilega bragðgott, hér erum við að vitna í hvítlauks-aioli frá vegan veitingastaðnum Mr. Joy. Staðurinn þykir með þeim betri fyrir grænkera.

„Þetta aioli er frábært sem meðlæti með alls kyns brauði, sem salatdressing og jafnvel sem ídýfa fyrir grænmeti eða með snakki. Svo er líka hægt að nota góða jómfrúarólífuolíu í stað venjulegrar ólífuolíu en það mun breyta bragðinu á aiolinu aðeins þar sem jómfrúarolían er ekki jafn hlutlaus í bragði og venjuleg ólífuolía“, segir Reynir Hafþór, annar eigenda Mr. Joy.

Ómótstæðilegt hvítlauks-aioli frá Mr. Joy

 • 90 ml aquafaba (kjúklingabaunasafi, þ.e.a.s. soðvökvinn af kjúklingabaunum)
 • 2 msk. eplaedik
 • 1 tsk. dijon-sinnep
 • 1 tsk. salt
 • 2 geirar af hvítlauk
 • 500 ml ólífuolía
 • nokkrir dropar af lime eða sítrónu

Aðferð:

 1. Fyrir þessa uppskrift er best að nota töfrasprota og djúpt sívalningslagað ílát til að blanda í.
 2. Byrja á að setja allt nema ólífuolíuna og lime í ílátið og blanda vel með töfrasprotanum. 
 3. Næst þarf að hella ólífuolíunni út í og passa að olían blandist jafnóðum við og blandan mun fljótlega þykkjast og verða hvít. 
 4. Eftir að öll olían hefur farið út í má bragðbæta olíuna með nokkrum dropum af lime eða sítrónu sem gefur henni aðeins ferskara bragð. 
mbl.is