Ofvirkir, hvatvísir og keyptu ónýtan matarvagn

Ljósmynd/Aðsend

Nýjasta viðbótin í veitingageirann er Bumbuborgarar en þar er á ferðinni fyrirmyndar framtak tveggja manna sem eru að eigin sögn bæði ofvirkir og hvatvísir.

„Okkur félagana langaði í raun að gera eitthvað nýtt og gera eitthvað meira fyrir sjálfa okkur. Við vorum báðir á krossgötum í lífinu þannig að við fórum að henda ýmsum boltum á loft og það endaði á að við fengum hugmyndina um að opna matarvagn,“ segir Benedikt Þorgeirsson, annar stofnenda og eigenda Bumbuborgara. Meðeigandi og -stofnandi er Samúel Þórir Drengsson, en félagarnir hafa verið bestu vinir frá fimm ára aldri.

Þeir Benedikt og Samúel keyptu vagn sem kom svo í ljós að var svo gott sem ónýtur að utan. Þeir rifu allt utan af vagninum þangað til ekkert stóð eftir nema grindin og kom í ljós að hún var ónothæf vegna ryðs.

„Við erum báðir svona ofvirkir og hvatvísir og það endaði ekki betur en svo að við keyptum vagn sem reyndist ónothæfur. Það fóru átta vikur samtals í að rífa hann í tætlur og byggja hann upp á nýtt frá grunni. Það jákvæða við þetta allt saman er að vagninn er nú allavega ný smíði – hver einasta skrúfa er glæný,“ segir Benedikt.

Bumbuborgarar eru hamborgarar fyrir alvörubumbur og segir á facebooksíðu þeirra að matarvagninn setji ný viðmið í hamborgurum. Yfirbygging vagnsins er lítil að sniðum sem gerir Bumbuborgurum kleift að bjóða upp á hagstæðara verð en ella.

„Við erum að stíla svolítið inn á hádegistraffíkina, allavega til að byrja með. Það verður fjölskylduvænn bragur á þessu hjá okkur og það ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi,“ segir Benedikt. „Við bjóðum upp á gæðahráefni og sem dæmi má nefna að á matseðlinum verða tvær sérstakar Bumbuborgarasósur, sem við gerum alveg frá grunni. Svo ætlum við líka að vera með kartöflubrauð og við erum bæði með veganborgara og krakkaborgara,“ heldur Benedikt áfram.

Bumbuborgarar verða á ferðinni alla virka daga og hægt er að fylgjast með á facebooksíðu þeirra hvar vagninn er staddur hverju sinni. Bumbuborgarar taka einnig að sér að mæta á viðburði og veislur sé þess óskað.

Hægt er að fylgjast með staðsetningu Bumbuborgara á Facebook.

- - -

Fylgstu með Mat­ar­vefn­um á In­sta­gram. Enda­laus æv­in­týri, hug­mynd­ir, skemmti­leg­ir leik­ir og allt það heit­asta heita ...

Svo megið þið endi­lega tagga okk­ur á In­sta­gram þegar þið eruð að elda eitt­hvað spenn­andi @mat­ur.a.mbl

Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert