Heimagert granóla

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Það er auðveldara en margur heldur að búa til granóla heima en gott granóla byggist á vandlega samansettri blöndu af höfrum og öðru fíneríi. Nauðsynlegt er að sætan sé góð – og náttúruleg svo að hitaeiningafjöldinn fari ekki fram úr hófi. Hér er uppskrift úr smiðju Berglindar Hreiðarsdóttur á Gotteri.is sem hittir í mark.

Sjálf segir Berglind að hún hafi lengi ætlað að prófa að gera granóla heima en einhverra hluta vegna ekki látið verða af því fyrr en nú. „Núna skil ég auðvitað ekki af hverju, því þetta er svo brjálæðislega gott að ég get ekki beðið eftir því að fara niður á morgnana og fá mér skál með AB-mjólk og þessu granóla,“ segir Berglind og ekki annað að sjá en granólað hafi heppnast fullkomlega.
Heimagert granóla
 • 2 þroskaðir bananar
 • 3 msk. hlynsíróp
 • 2 msk. brædd kókosolía
 • 1 tsk. vanilludropar
 • 450 g Til hamingju-tröllahafrar
 • 40 g Til hamingju-kókosflögur
 • 60 g Til hamingju-pekanhnetur (saxaðar gróft)
 • 60 g Til hamingju-heslihnetur heilar
 • 1 tsk. kanill
 • ½ tsk. sjávarsalt
 • 50 g 70% súkkulaði

Aðferð:

 1. Hitið ofninn í 175°C.
 2. Setjið banana, síróp, olíu og vanilludropa í blandarann og blandið í mauk.
 3. Hrærið öllum öðrum hráefnum nema súkkulaðinu saman í stóra skál.
 4. Hellið bananamaukinu yfir og blandið vel saman.
 5. Skiptið niður á tvær bökunarplötur, íklæddar bökunarpappír, og dreifið vel úr.
 6. Bakið í um 35 mínútur en hrærið í blöndunni 4-5 sinnum á tímabilinu.
 7. Kælið alveg og saxið þá súkkulaðið niður og blandið saman við.
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is