Hélt ólöglegt ostapartý sem sprengdi alla skala

Ljósmynd/María Gomez

Stundum eru haldin partý sem maður hefði gefið hægra lungað til að vera boðið í. Þetta var klárlega eitt af þeim og er María Gomez vinsamlega beðin um að hafa samband við hæstvirta ritstjórn matarvefjarins næst.

Við erum að tala um ostapartý!

Og eins og allir sannir ost-istar (þetta er nýyrði sem próförk er vinsamlegast beðin um að fikta ekki í) vita þá er fátt sem gleður geðið jafn mikið og góður ostur.

Ljósmynd/María Gomez

„Hver elskar ekki góða osta? Hér eru á ferðinni djúpsteiktir ostar frá Alpenhein sem koma frosnir og þarf aðeins að hita í ofni. Þar sem þarf akkurat ekkert að hafa fyrir ostunum þá leyfði ég mér að dúllast aðeins í eldhúsinu til að gera hina fullkomnu ostamáltíð, já máltíð má kalla þetta enda sniðugt sem brunch eða í hittinginn. Eplin og hneturnar er afar auðvelt að gera og að baka brauðið líka nema það tekur bara sínar 30 mínútur að hefast, en þið getið líka vel keypt bara gott snittubrauð. Mín tillaga er að hafa snittubrauð smurt með Den gamle Fabrik-rifsberjahlaupi, heilan camembert ofan á, gljáðu eplin þar ofan á og hunangristuðu hneturnar á toppnum. Með mini-ostunum mæli ég með þeim á bakka með kexi, ávöxtum, sultu og einhverju smá sætu eins og súkkulaðihúðuðum hnetum og rúsínum og þess vegna góðum kryddpylsum,“ segir María og nú eru sjálfsagt einhverjir sem geta ekki beðið eftir að gera svona osta. 

Ljósmynd/María Gomez

Ostaveisla með balsamic-gljáðum eplum, hunangsristuðum hnetum og heimabökuðu baguette-brauði

Balsamik-gljáð epli 

 • 1-2 epli megið ráða litnum 
 • 1 msk. vatn
 • 1,5 msk. balsamik-edik
 • 2 msk. púðursykur 
 • 1 msk. hunang 

Hunangsristaðar hnetur 

 • 3 msk. hunang 
 • 1 msk. sykur eða hrásykur 
 • 1/2 dl kasjúhnetur 
 • 1/2 dl valhnetur 
 • 1/2 dl sesamfræ
 • gróft salt 

Heimabakað ofurauðvelt baguette-brauð

 • 4 bollar eða 550 gr. fínt spelt 
 • 2 tsk. salt 
 • 1 msk. hunang
 • 50 gr. pressuger eða eitt umslag þurrger ca. 11-12 gr. (mæli með pressugerinu frekar ef þið fáið það en það fæst í mjólkukæli í Hagkaup, Fjarðarkaup og víðar)
 • 4 dl ylvolgt vatn 
 • 2 msk. ólífuolía 

Aðferð

Balsamik-gljáð epli 

 1. Afhýðið eplin og skerið í þunnar sneiðar
 2. Setjið vatn, edik, sykur og hunang á frekar litla pönnu ef þið eigið og leyfið því að byrja að sjóða við miðlungshita
 3. Setjið þá eplasneiðarnar út á og lækkið ögn hitann og setjið lok á 
 4. Látið sjóða í 10 mínútur og snúið þá eplunum og leyfið að sjóða aðrar 10 mínútur undir loki 

Hunangsristaðar hnetur 

 1. Ristið hneturnar og fræin á pönnu og setjið svo til hliðar 
 2. Setjið hunang og sykur á pönnuna og látið byrja að malla við miðlungshita 
 3. Setjið þá hneturnar út á og hrærið vel saman svo þær verði allar vel hunangshúðaðar
 4. Setjið svo á brauðbretti og stráið grófu salti yfir 
 5. Stingið í frysti 

Heimabakað ofurauðvelt baguette-brauð

 1. Setjið spelt og salt í skál og hrærið saman með króknum 
 2. Setjið næst hunang, ger og volgt vatn saman í aðra skál og hrærið vel og látið standa í 5 mínútur 
 3. Bætið næst ólífuolíunni út í gerblönduna og hrærið vel saman 
 4. Kveikið á hrærivélinni með krók á og hellið gerblöndunni út í skálina rólega meðan er að hnoðast 
 5. Hnoðið þar til deigið er búið að hringa sig um krókinn en það er frekar blautt og klístrað og á að vera þannig, ekki bæta við spelti 
 6. Leggið svo viskastykki yfir skálina og látið hefast á volgum stað í 30 mín.
 7. Sáldrið nú hveiti á borðið og takið deigið úr skálinni og skiptið í tvennt. Ekki hnoða deigið neitt meira
 8. Kveikið á ofninum á 210 C° blástur 
 9. Fletjið úr deiginu með því bara að nota hendurnar og puttana, teygið og fletjið með því að ýta á það með puttunum þar til myndast eins og lítill ferningur á stærð við Morgunblaðið
 10. Rúllið svo ferningnum upp í pylsu og brettið endana undir beggja vegna og setjið á bökunarplötu með bökunarpappír á
 11. Leggið stykki yfir og leyfið að hefast aðrar 10 mínútur 
 12. Skerið svo raufar í brauðið eins og er á baguette og úðið með vatni og sáldrið smá spelti yfir
 13. Stingið í ofninn í 12-15 mínútur 

Camembert-snitta

 1. Skerið væna sneið af baguette-brauði
 2. Smyrjið Den Gamle Fabrik-rifsberjahlaupi ofan á brauðsneiðina 
 3. Setjið heitan djúpsteiktan camembert-ostinn beint úr ofninum ofan á 
 4. Gljáðu eplin svo ofan á ostinn og myljið svo hunangsgljáðu hneturnar yfir (gott að nota mortel eða berja á þær með kökukefli)
Ljósmynd/María Gomez
Ljósmynd/María Gomez
mbl.is