Ég hef einfaldan smekk, ég vil aðeins það besta á Oscar Wilde að hafa sagt einhverju sinni. Þessi uppskrift er ekki fyrir hann. En fyrir þá sem gera hófstilltari kröfur í eldhúsinu er hún tilvalin.
Glóðvolgt falafel, best borið fram með hummus, salati, grískri jógúrt og góðu brauði.
Uppskriftin er úr bókinni Jerusalem eftir Yotam Ottolenghi & Sami Tamimi, en það var áhugakokkurinn Arnór Jóhannsson sem deildi uppskriftinni með Matarvefnum. Hann hefur sjálfur bragðað þetta nokkrum sinnum og ekki orðið meint af.
Hráefni:
- 250g kjúklingabaunir, þurrkaðar
- ½ laukur
- 1 hvítlauksrif
- 1 msk. fersk steinselja
- 2 msk. ferskt kóríander
- ¼ tsk cayennepipar
- ¼ tsk mulið kummín (cumin)
- ½ tsk mulin kóríanderfræ
- ¼ tsk mulin kardimomma
- ½ tsk matarsódi
- 1½ msk. hveiti
- olía til djúpsteikingar (líka hægt að gera í ofninum)
- salt eftir smekk
Enginn íburður hér á bæ. Bollurnar voru mátulega stökkar og héldust saman í þetta sinn enda kjúklingabaunirnar búnar að liggja í bleyti yfir nótt.
Ljósmynd/Aðsend
Aðferð:
- Það er mikilvægt að nota þurrkaðar kjúklingabaunir. Falafel úr dós dettur of auðveldlega í sundur. Á þessu höfum við brennt okkur.
- Setjið kjúklingabaunir í stórt ílát, þekið með köldu vatni sem er a.m.k. tvöfalt rúmmál baunanna. Látið standa yfir nótt.
- Daginn eftir, blandið saman baunum, lauk, hvítlauk, steinselju og kóríander. Gott er að setja þetta í hakkavél á fínustu stillingu tvisvar. Annars er hægt að nota matvinnsluvél og hakka þar til það er orðið mjög fínt en ekki orðið kremugt. Maukið á ekki að líkjast hnetusmjöri.
- Blandið saman kryddi, salti (u.þ.b. ¾ tsk), hveiti og smá vatni (3 msk.). Látið bíða inni í ísskáp í klukkustund hið minnsta.
- Hitið olíu upp í 180°C.
- Bleytið nú hendur. Mótið kúlur á stærð við valhnetur með u.þ.b. einni matskeið af baununum. Munið að þrýsta vel þegar kúlurnar eru mótaðar, annars er hætt við að þær detti í sundur. (Hér er hægt að setja sesamfræ utan á falafelið ef þið viljið, en búið ykkur undir að hluti þess muni detta af og brenna í olíunni.)
- Djúpsteikið í skömmtum þar til falafelið er orðið vel brúnt allan hringinn (u.þ.b. 4 mínútur).
- Setjið bollurnar á eldhúspappír til að ná sem mestri olíu úr þeim.
- Berið fram.