Cocoa Puffs og páskaegg rokseljast

Cocoa Puffs selst hratt eftir að tilkynnt var um að …
Cocoa Puffs selst hratt eftir að tilkynnt var um að það verði ekki lengur selt á íslenskan markað. mbl.is/Þorsteinn

Cocoa Puffs hefur selst í hrönnum í verslunum Krónunnar frá því að tilkynnt var að morgunkornið verði ekki lengur selt á íslenskum markaði. Ásta Sigríður Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar, segist gera ráð fyrir því að birgðir verslunarkeðjunnar á Cocoa Puffs verði uppurnar í dag eða á morgun. 

Greint var frá því á miðvikudag að Gener­al Mills hefði upp­lýst Nath­an & Ol­sen, umboðsaðila sinn á Íslandi, um að vörumerk­in Cocoa Puffs og Lucky Charms væru ekki leng­ur í boði fyr­ir ís­lensk­an markað, en síðasta sending varanna barst til landsins í mars. Ástæðan er breyt­ing­ar á upp­skrift sem fel­ur í sér viðbætt nátt­úru­legt litar­efni sem sam­ræm­ist ekki Evr­ópu­lög­gjöf sem gild­ir á evr­ópska efna­hags­svæðinu.

Svolítið er síðan Krónan lét af sölu á Lucky Charms líkt og flestar aðrar verslanir hér á landi þegar uppskrift morgunkornsins var síðast breytt. Ásta Sigríður segir eftirspurn eftir Cocoa Puffs í kjölfar frétta gærdagsins vera gríðarlega. 

„Eftirspurnin er slík að við erum búin að selja þúsundir pakka. Við erum að tæma vöruhúsið okkar svo við gerum ráð fyrir að þetta seljist bara upp í dag eða á morgun,“ segir Ásta Sigríður

„Fólk er einfaldlega farið að hamstra þetta, kannski eðlilega. Svo eru páskar og þá leyfir fólk sér kannski aðeins meira, fær sér eitthvað sætara í morgunmálið svo eftirspurnin er alltaf meiri. En við höfum aldrei upplifað annað eins, þetta er margföld sala,“ segir Ásta. „Þetta er ákveðinn missir í fjölbreyttri íslenskri morgunmatarmenningu.“

Páskaegg rjúka út 

Ásta Sigríður segir að Krónan sjái einnig metsölu á páskaeggjum þessa dagana. Úrvalið íslenskra páskaeggja hafi aldrei verið meira en nú og fólk virðist kaupa fleiri en eina tegund til að bragða á. 

„Páskaeggin eru einfaldlega að klárast og við þrýstum á framleiðendur um að framleiða meira fyrir okkur – en þeir hafa einfaldlega ekki undan! Þetta er mesta sala frá upphafi í páskaeggjum hjá Krónunni,“ segir Ásta Sigríður og bætir við:

„Það er sannarlega mikið vöruúrval í páskaeggjum svo fólk er kannski að kaupa sér fleiri en eitt egg og smakka mismunandi. Það er Covid, fólk er heima að hafa það huggulegt um páskana og leyfir sér mögulega að gæða sér á aðeins fleiri eggjum en venjulega og um leið birgja sig upp af sögulegu Cocoa puffsi.“

Cocoa Puffs seldist upp í Hagkaupum í Skeifunni.
Cocoa Puffs seldist upp í Hagkaupum í Skeifunni. Mynd/mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert