Himnesk súkkulaðiterta með ekta súkkulaðikremi

Ljósmynd/Valla - GRGS

Það er hún Valla hjá GRGS sem á heiðurinn af þessari páskabombu sem við getum ekki beðið eftir að baka.

„Súkkulaðitertur geta verið eins ólíkar og þær eru margar. Sum bæta við sultu, bönunum eða karamellu til dæmis í fyllinguna, þær geta verið með ríkjandi vanillubragð, kakóbragð eða jafnvel piparmyntu. Í ljósari kantinum eða dökkar, með smjörkremi eða ganache jafnvel. Þær eiga þó það sameiginlegt að alltaf eru þær vinsælar, hvort sem er hjá börnunum eða fullorðnum.

Þessi kaka er ótrúlega mjúk og djúsí, í dekkri kantinum og með votti af kaffibragði (ef þið eruð ekki hrifin af kaffi er snjallt að skipta því út fyrir heitt vatn). Kremið er silkimjúkt og inniheldur tvær tegundir af gæðasúkkulaði. Ekki of sæt eða væmin, bara djúpt og gott súkkulaðibragð. Heiðarleg og fullkomin fyrir sanna unnendur súkkulaðis.

Gleðilega páska kæru vinir!“

Himnesk súkkulaðiterta með ekta súkkulaðikremi

 • 1 3/4 bollar hveiti
 • 2/3 bollar dökkt kakó
 • 1 tsk. lyftiduft
 • 1 tsk. matarsódi
 • 1 bolli hrásykur, má nota venjulegan hvítan
 • 1/2 bolli púðursykur
 • 2 stór egg við stofuhita
 • 1/2 bolli jurtaolía
 • 200 g grísk jógúrt
 • 2 tsk. vanilludropar
 • 1 bolli sterkt kaffi (má skipta út fyrir heitt vatn ef þið eruð viðkvæm fyrir kaffibragði)

Smjörkrem með ekta súkkulaði

 • 250 g ósaltað smjör mjúkt
 • 400 g flórsykur
 • 50 g dökkt kakó
 • 2-3 msk. rjómi
 • 2 tsk. vanilludropar
 • 80 g 70% súkkulaði
 • 100 g núggatfyllt súkkulaði

Setjið smjörið í skál og þeytið mjög vel. Brjótið súkkulaðið í bita og setjið í hitaþolna skál.

Bræðið í örbylgjuofni þar til það er bráðið. Passið að ofhita það ekki. Setjið flórsykur, kakó, vanilludropa og rjóma saman við smjörið og þeytið vel. Skafið vel niður á milli.

Setjið brætt súkkulaðið saman við og þeytið vel áfram. Smyrjið kreminu á kalda kökuna og skreytið eftir smekk.

Leiðbeiningar

1. Hitið ofninn í 175°C blástur og smyrjið tvö kringlótt kökuform 20 cm í þvermál.

2. Sigtið þurrefni saman í skál, setjið sykur og púðursykur saman við og hrærið vel þannig að engir kekkir séu eftir.

3. Setjið egg, olíu, gríska jógúrt og vanillu saman í skál og pískið. Blandið saman við þurrefnin. Blandið kaffinu rólega saman við, passið að hræra deigið ekki of mikið annars verður kakan seig.

4. Skiptið deiginu jafnt í formin, mér finnst best að vigta í formin til að vera nákvæm.

5. Bakið í 35 mín., botnarnir eru tilbúnir þegar prjónn sem stungið er í þá kemur hreinn upp.

Ljósmynd/Valla - GRGS
Ljósmynd/Valla - GRGS
Ljósmynd/Valla - GRGS
mbl.is