Guðdómlegt pastasalat með „kjúklingi“

Ljósmynd/Berglind Hreiðars

Það verður að segjast eins og er að það er hrikalega spennandi að sjá góða valkosti við kjöt sem hægt er að gæða sér á. Hér fer Berglind Hreiðars á Gotteri.is á kostum með geggjaða kjötlausa uppskrift sem er guðdómleg á bragðið.

„Nú hef ég aðeins verið að prófa að vinna með Hälsans Kök-vörurnar sem eru vegan. Ég er klárlega ekki vegan en á móti þá finnst mér allt í lagi að borða minna af dýraafurðum. Það er magnað hvað þessar vörur eru orðnar góðar og líkjast mikið „alvöru“ kjöti, við elskum til dæmis hakkið og þessir kjúklingafilébitar voru virkilega góðir. Það sem mér finnst svo mikill kostur er að það má taka þetta beint úr frystinum og elda og þannig flýtir maður vel fyrir eldamennskunni,“ segir Berglind.

Pastasalat með „kjúklingi“

Fyrir tvo

  • 1 pakki Hälsans Kök vegan kjúklingafile (325 g)
  • 250 g soðnar pastaskrúfur
  • 3 msk. grænt pestó
  • ½ brokkólihaus
  • furuhnetur
  • basilíka
  • parmesanostur
  • matarolía til steikingar
  • salt og pipar

Aðferð:

  1. Sjóðið pastaskrúfur í saltvatni, sigtið vatnið frá og setjið í skál og blandið pestó saman við.
  2. Skerið brokkólí í munnstóra bita, steikið upp úr olíu og skvettið smá vatni á pönnuna í lokin ef þið viljið mýkja það enn frekar, bætið í skálina.
  3. Setjið meiri olíu á pönnuna og steikið nú kjúklingabitana og kryddið eftir smekk.
  4. Bætið þeim í skálina ásamt furuhnetum og saxaðri basilíku.
  5. Blandið öllu saman og berið fram með parmesanosti.
Ljósmynd/Berglind Hreiðars
Ljósmynd/Berglind Hreiðars
Ljósmynd/Berglind Hreiðars
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert