Út að borða í Boeing 777

Það þykir mjög vinsælt að fara út að borða í …
Það þykir mjög vinsælt að fara út að borða í kyrrstæðri flugvél ef marka má þessar fréttir. Mbl.is/ANA

Enn og aftur verðum við að dást að þeim sem sýna frumkvæði á tímum sem þessum – en svo virðist sem vinsælt sé að fara út að borða í flugvél sem fer þó ekki í loftið. Ferðaþörfin hefur náð hæstu hæðum!

Stærsta flugfélag Japans, ANA eða All Nippon Airways, býður upp á fyrsta flokks veitingastað í Boeing 777-flugvél sem hefur verið lagt á Haneda-flugvellinum í Tókýó og fer ekki í loftið sökum heimsfaraldursins. Flugfélagið ákvað að bjóða upp á þjónustuna í stað þess að láta vélina standa tóma og viðbrögð fólks létu ekki á sér standa þar sem sætapantanir hrönnuðust inn og hefur ANA lofað að bæta við fleiri dagsetningum. Miði fyrir einn í mat og drykk kostar um 68 þúsund krónur en ekki er tekið fram hvaða matur er nákvæmlega borinn á borð, þó vonandi eitthvað fínna en upphitaðar samlokur eins og við þekkjum svo vel á flugi.

Þess má einnig geta að Singapore Airlines hefur boðið gestum upp á hádegismat í kyrrstæðum Airbus A380, sem stóðu á aðalflugvelli borgarinnar. Þar kostaði miðinn örlítið minna og seldust fyrstu tvær dagsetningarnar upp á innan við hálftíma.

mbl.is