Ólst upp með móður sem neitaði sér um góðan mat

Aðdáendur Nigellu Lawson hafa vafalaust tekið eftir því á undanförnu ári eða svo að heimilisgyðjan – eins og hún er oft kölluð – er orðin mun sófakærari og segist nú helst ekki nenna að fara úr þægilegu fötunum. Hún kunni að meta gæði lífsins og hvílíkur munaður það sé að geta borðað súkkulaði í morgunmat – uppi í rúmi.

Í nýlegu viðtali við tímaritið People segir Nigella að stór hluti þess viðhorfs sem hún hafi til lífsins sé kominn frá móður hennar sem hafi greinst með krabbamein einungis 48 ára gömul og dáið tveimur vikum síðar. Hún hafi alla ævi verið mikil meinlætakona og neitað sér um ljúffengan mat. Það hafi fyrst verið við greininguna sem hún hafi leyft sér að njóta þess að borða góðan mat.

Segir Lawson að þetta sé stór áhrifavaldur í hennar lífi en hún hefur misst marga nákomna sér úr krabbameini og því mjög meðvituð um mikilvægi þess að njóta líðandi stundar.

Hún segist jafnframt njóta þess að eiga uppkomin börn. Hún hafi sinnt þeim af alúð í gegnum árin og nú sé kominn tími á hana sjálfa.

Nýjasta bók Lawson, Cook, Eat, Repeat, kemur út síðar í mánuðinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert