Nýjasta mathöll landsins opnuð á morgun

Björn Bragi ásamt þeim Karítas og Hafsteini hjá HAF Studio.
Björn Bragi ásamt þeim Karítas og Hafsteini hjá HAF Studio.

Á morgun verður opnuð nýjasta mathöll landsins í Borgartúni 29 og eru veitingastaðirnir ekki af verri endanum. Mathöllin kallast BORG29 sem vísar til heimilisfangsins og ljóst er að hér er á ferðinni mikill hvalreki fyrir svæðið enda fjöldi fólks sem býr og starfar í grenndinni.

Að baki BORG29 er fimm manna hópur og í forsvari fyrir hann er Björn Bragi Arnarson. Hann segir að mikið hafi verið lagt upp úr að fá inn réttu samstarfsaðilana og einvalalið sé að baki mathöllinni.

„Í mathöllinni verða níu veitingastaðir í heildina. Tveir sem hafa verið starfandi áður: sjávarréttastaðurinn Hipstur og hamborgarastaðurinn Yuzu. Svo eru sex nýir og spennandi staðir: Bál, La Masa, Natalía Pizzeria, Pronto Pasta, Svala Reykjavík og Umami. Þá er opið yfir á Wok On sem er við hliðina og hægt að ganga á milli,“ segir Björn Bragi. 

Það voru svo þau Karítas og Hafsteinn hjá HAF Studio sem sáu um allan hönnun. „HAF Studio sá um alla hönnun í BORG29. Við gætum ekki verið ánægðari með útkomuna enda eru þau fagmenn fram í fingurgóma. Við hlökkum mikið til að taka á móti fólki í þessu fallega umhverfi.“

Hvernig hefur undirbúningur gengið?

Björn segir undirbúninginn hafa heilt yfir gengið mjög vel þrátt fyrir krefjandi aðstæður á köflum. „Við erum búin að vinna í þessu verkefni í ár og framkvæmdir hafa staðið yfir frá því seint í haust. Lagt var upp með að vanda vel til verks við að velja inn staðina. Við vildum auðvitað hafa gæðin í fyrirrúmi og gæta að fjölbreytni þannig að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi og fyrir allar máltíðir dagsins.“

Í BORG29 verður hægt að fá góðan morgunmat, hádegismat og kvöldmat og þess á milli getur fólk sest niður með drykk í góðra vina hópi. „Við erum virkilega ánægð með útkomuna. Þetta eru ótrúlega flottir staðir sem koma til með að starfa þarna,“ segir Björn Bragi en BORG29 verður opnuð klukkan 7:30 í fyrramálið en þá getur fólk komið í kaffi og graut/skál/boost á Svölu Reykjavík. Aðrir staðir verða síðan opnaðir klukkan 11 og verða opnir til 22 um kvöldið.

mbl.is