„Við viljum bjóða Íslendingum upp á ekta mexíkóskan mat"

Mexíkóski veitingastaðurinn La Masa opnar í mathöllinni BORG29 sem opnar formlega í Borgartúni 29 á morgun. La Masa er ekta mexíkósk taqueria þar sem meðal annars er boðið upp á tortillur, eins og tortillur eiga að vera. Ef hugurinn girnist tacos, er La Masa staðurinn. Grunnurinn, matreiðslan og aðferðin er frá Mexíkóborg, hvar einn eigandi La Masa, Einar Örn Einarsson, bjó.



„Ég bjó við hliðina á tortilleria þar sem ekta ferskar tortillur voru búnar til á hverjum degi og því miður er afar sjaldan boðið upp á tacos úr góðum tortillum eins og þær eiga að vera. Allt of margir staðir í Evrópu og Bandaríkjunum bjóða upp á frosnar tortillur eða í besta falli gerðar úr maísmjöli. Við viljum gera mun betur og bjóða Íslendingum upp á ekta mexíkóskan mat,“ segir Einar Örn Einarsson, einn af eigendum La Masa.

Undirstaðan í góðum tacos eru tortillurnar og þær á La Masa í BORG29 eru gerðar frá grunni. La Masa flytur inn Cónico Azul-maís frá Mexíkó, en hann vex í Atlacomulco-fjöllunum í Estado de México, á maísekru sem hefur verið í eigu sömu fjölskyldunnar í fimm kynslóðir.

„Á La Masa sjóðum við maísinn, látum hann liggja yfir nótt og mölum hann í kvörninni okkar sem við fluttum inn frá San Luis í Mexíkó. Úr því verður deigið okkar, sem á spænsku heitir masa, og þaðan kemur nafnið á staðnum. Deigið er svo sett í pressuna okkar og til verða þessar ekta tortillur sem við steikjum á pönnu og jafnast á við það besta sem þú getur fengið á götum Mexíkóborgar,“ segir Einar Örn.

Viðskiptavinir La Masa geta síðan valið úr miklu úrvali til að setja á tortilluna. Má þar nefna hægeldað barbacoa-lambakjöt, Al pastor-svínakjöt, BBQ-kjúkling, Portobello-sveppi og djúpsteikta löngu og þá verður mikið úrval af sósum og meðlæti á salsabarnum.

„La Masa býður að auki upp á úrval af hágæðatekíla og mezcal, svo ekki sé minnst á mexíkóska kokteila,“ segir Einar Örn.

La Masa opnar eins og áður segir þriðjudaginn 20. apríl í BORG29-mathöllinni í Borgartúni 29.

- - -

Fylgstu með Mat­ar­vefn­um á In­sta­gram. Enda­laus æv­in­týri, hug­mynd­ir, skemmti­leg­ir leik­ir og allt það heit­asta heita ...

Svo megið þið endi­lega tagga okk­ur á In­sta­gram þegar þið eruð að elda eitt­hvað spenn­andi @mat­ur.a.mbl

mbl.is