Gott rauðvín frá Landinu helga

Víngerðin í Psagot nýtur mikilla vinsælda og nemur ársframleiðslan nú …
Víngerðin í Psagot nýtur mikilla vinsælda og nemur ársframleiðslan nú um 600 þúsund flöskum. Ljósmynd/Psagot

Víngerð á sér afar fornar rætur í Landinu helga. Raunar svo langt aftur sem sagan kann að teygja sig. Í dag er margt áhugavert að gerast í þessum efnum, allt frá Gólanhæðunum í norðri og í átt að Dauðahafinu. Mörg þessara vína hafa vakið verðskuldaða athygli á síðustu árum og bera loftslaginu og jarðveginum vitni. Oft mjög kraftmikil og alkóhólrík. Þykir sumum nóg um en vínin keppa auðveldlega við „bolta“ frá öðrum suðlægum vínræktarsvæðum.

Lítið hefur fengist af þessu víni hér á landi og eru tegundirnar raunar teljandi á fingrum annarrar handar um þessar mundir. Koma þær frá tveimur framleiðendum, Clos de Gat sem rekur víngerð vestur af Jerúsalem og Psagot sem er starfandi spölkorn austur af Ramallah.

Ónákvæmni í skráningu upprunalands

Síðarnefnda vínið hefur komist nokkuð í fréttir að undanförnu í kjölfar þess að samtökin Ísland-Palestína gerðu athugasemd við skráningu upprunalands vínsins á heimasíðu Vínbúðanna. Sagði þar að upprunalandið væri Ísrael. Þegar litið er á umbúðirnar sem vínið er selt í segir að það sé framleitt á landi „hins forna Ísraels“.

Reiði fyrrnefndra samtaka beinist að því að ræktarland og víngerð Psagot er staðsett á Vesturbakkanum en það er landsvæði sem mikið hefur verið deilt um yfirráðin á svo áratugum skiptir. Landsvæðið komst undir stjórn Jórdaníu í kjölfar stríðsins 1948 og laut ríkinu allt til ársins 1967 þegar Ísraelar sigruðu með afgerandi hætti í hinu svokallaða sex daga stríði. Allt frá þeim tíma hefur Ísrael haft tögl og hagldir á svæðinu þótt leitast hafi verið við að ná sátt um skiptingu þess milli Palestínumanna og Ísraela.

Djúprautt og kraftmikið 14% Sinai er gott að bera fram …
Djúprautt og kraftmikið 14% Sinai er gott að bera fram í góðu búrgúndíglasi og gefa því góðan tíma til að anda. Ekki skemmir fyrir að umhella víninu með góðum fyrirvara.

Víngerðin hjá Psagot tilheyrir svokölluðu C-svæði sem samkvæmt Oslóarsamkomulaginu síðara, sem undirritað var í Egyptalandi árið 1995, á að lúta fullum yfirráðum Ísraels. Víngerðin í Psagot rekur sögu sína ekki langt aftur. Var komið á laggirnar 2003 og hefur vaxið mjög ásmegin síðan. Stofnendurnir eru gyðingarnir Na'ama og Yaakov Berg. Hafa þau ráðið til fyrirtækisins jöfnum höndum Ísraela og Palestínumenn og er starfsemin því markvert framlag til þess annars vegar að auka samgang og skilning milli þjóðanna og hins vegar til þess að draga úr atvinnuleysi sem er nokkuð hátt á Vesturbakkanum. Það er þó mun skaplegra en á Gazasvæðinu þar sem enginn samgangur er milli þjóðanna. Á fyrrnefnda svæðinu hefur það verið í kringum 15% en vel yfir 40% á því síðarnefnda.

Salan eykst og eykst

Víngerðin í Psagot hefur oftsinnis orðið skotspónn þeirra sem reka vilja fleyg í samskipti Ísraela og Palestínumanna og skera samtökin Ísland-Palestína sig því ekki úr í þeim efnum.

Þrátt fyrir þessar árásir hefur eftirspurn eftir víninu frá Psagot aukist ár frá ári og nú nemur ársframleiðsla fyrirtækisins um 600 þúsund flöskum á ári. Hefur Yaakov sagt að eftirspurnin aukist í raun í hvert sinn sem umræðan gýs upp.

Þegar umræðan hófst hér á landi fór innflytjandi vínsins á taugum og lýsti því yfir að það hefðu verið mistök að hefja innflutning á því. Framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Vínbúðanna þvoði hendur sínar af málinu eins og Pílatus forðum og benti á að fyrirtækinu væri ekki heimilt að „hafna víni í sölu“ eins og að það væri í raun vilji þess.

Eina heilbrigða viðbragðið við þessu máli öllu saman væri að breyta upprunamerkingu á heimasíðu Vínbúðanna. Það hefði reyndar mátt gerast strax, ekki síst ef starfsmenn ríkisverslunarinnar hefðu t.d. skoðað vöruna á Vivino þar sem hún er sögð frá „Vesturbakkanum, palestínsku yfirráðasvæði“.

Hefur atvinnu af fólki

Þeir sem telja að banna eigi innflutning á þessu víni eða sneiða hjá því eru að reyna að koma tvennu til leiðar: Draga úr samskiptum milli þjóðarbrotanna í Ísrael og draga úr atvinnumöguleikum fólks sem hefur fáa kosti í boði þegar kemur að því að framfleyta sér. Slíkt mun ekki auka á frið á svæðinu, þvert á móti og réttara væri að andstæðingar Ísraels beindu spjótum sínum að yfirvöldum þar í landi með gagnrýni sína, fremur en að herja á fyrirtæki sem ekki bera ábyrgð í þeim efnum.

Gott vín á sanngjörnu verði

Þegar öllu er á botninn hvolft er vínið frá Psagot allrar athygli vert og skemmtileg nýbreytni meðal þess sem áður hefur verið í boði hjá Vínbúðunum. Mætti innflytjandi þess fjölga vínunum sem í boði eru, fremur en að hlaupast undan merkjum og láta eins og að hann hafi ekki vitað hvað hann var að gera. Í því felst engin pólitísk yfirlýsing, bara staðfesting á góðum smekk og þeirri viðleitni að auka úrvalið fyrir íslenska rauðvínsunnendur. Til þess að andmæla ofbeldinu sem felst í þeirri kröfu að vínið sé tekið úr búðum eða vörur frá Ísrael séu sniðgengnar ætti fólk að grípa sér flösku af Psagot Sinai M Series sem kostar 3.962 krónur eða gera sérlega vel við sig og tryggja sér flösku af Single Vineyard Cabernet Sauvignon sem kostar 8.219 krónur. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert