Um 90% af seldu kjöt frá íslenskum framleiðendum

mbl.is/TheKitch

Um 90% af því kjöti sem Bónus selur í verslunum sínum um land allt er íslensk framleiðsla og eða frá íslenskum kjötframleiðendum.
 
„Lambakjötið í Bónus er 100% íslenskt ásamt fersku ókrydduðu grísakjöti. Innlendir svínabændur og innlendar kjötvinnslu flytja þó í einhverjum tilfellum til landsins svínakjöt til vinnslu sem þeir selja síðan undir sínum vörumerkjum t.d. beikon og álegg. Alltaf er tilgreint á umbúðum ef um innflutt hráefni er að ræða. 93% af nautakjötinu er íslensk framleiðsla og eru tvö vörunúmer, nautalund og nautaribeye, innflutt á svokölluðum tollkvótum þegar þeir eru í boði. Kjúklingakjöt í verslunum Bónus er í 80% tilfella íslenskt og 20% er dönsk framleiðsla,“ segir Guðmundur Marteinsson framkvæmdastjóri Bónus.
 
„Gæði íslenska kjötsins er óumdeilanlegt en sitt sýnist hverjum um verð. Við í Bónus leggjum okkar að mörkum með lágri álagningu og sama verði í öllum verslunum okkar um allt land. Með því að velja íslenska framleiðslu styðjum við atvinnu- og verðmætasköpun í landinu, auk þess er það okkar trú að kolefnissporið er minna. Þetta er því ákveðin jákvæð hringrás í hagkerfinu,“ segir Guðmundur.

mbl.is