Nýr veitingastaður opnaður á Hlemmi Mathöll

Jósef Halldór við hestakerruna góðu.
Jósef Halldór við hestakerruna góðu. Ljósmynd/Aðsend

Veitingastaðurinn Caliber er nýr pop-up-staður á Hlemmi Mathöll sem var opnaður nú í morgun föstudaginn 7. maí. Caliber býður eingöngu upp á hollar og bragðgóðar vörur, þar á meðal ferskar og næringarríkar acaí- og skyrskálar, bragðgóðan djús og engiferskot.

Það sem einkennir veitingastaðinn helst er að skálarnar eru gerðar frá grunni og er eingöngu notast við hráefni í hæsta gæðaflokki. Það sem setur svo punktinn yfir i-ið er hið sívinsæla granóla sem er bakað á staðnum á hverjum einasta morgni fyrir opnun.

Að sögn Jósefs Halldórs, eiganda staðarins, er lögð rík áhersla á að halda verðinu sanngjörnu. Caliber á rætur að rekja til Akraness, en Jósef Halldór ákvað að stofna fyrirtækið þegar hann sá fram á að missa starf sitt vegna Covid-ástandsins.

„Þetta byrjaði í raun allt þegar ég sá þessa líka fínu hestakerru sem var vel á aldur komin og fékk þá hugmynd að vel væri hægt að nýta hana sem matarvagn. Eftir að ég fjárfesti í kerrunni tók við tveggja mánaða vinna við að gera kerruna upp og með hjálp góðra vina og ættingja varð þessi gamla hestakerra að litlum krúttlegum matarvagni. Caliber opnaði í matarvagninum hinn 11. júní 2020 við íþróttahúsið Jaðarsbakka á Akranesi. Viðtökur Skagamanna voru algjörlega stórkostlegar og fóru fram úr mínum björtustu vonum,“ segir Jósef Halldór.

„Við höfum alltaf haft háleit markmið fyrir Caliber og því ákváðum við að næsta skref fyrir fyrirtækið væri að opna einnig stað á höfuðborgarsvæðinu. Það komu nokkrir staðir til greina en við töldum að rétta skrefið fyrir okkur væri að opna á Hlemmi Mathöll."

„Við fögnum komu Caliber í rýmið sem áður hýsti Brauð & Co á Hlemmi. Við höfðum verið að leita eftir rekstri sem þjónaði morgungestum mathallarinnar og þegar við hittum Caliber þá small allt saman,“ segir Berta Danielsdóttir, stjórnarformaður Hlemms Mathallar.

Caliber verður opinn frá klukkan átta á virkum dögum og frá tíu um helgar.

Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert