Sveinn og Ágústa buðu upp á sannkallað sælgæti

Sveinn Guðjónsson og Ágústa Þórólfsdóttir buðu Alberti í mat á …
Sveinn Guðjónsson og Ágústa Þórólfsdóttir buðu Alberti í mat á dögunum. Ljósmynd/Albert Eiríksson

Albert Eiríks heldur áfram að taka hús á Vestfirðingum og að þessu sinni eru það hjónin Ágústa Þórólfsdóttir, píanókennari við Tónlistarskólann á Ísafirði, og Sveinn Guðjónsson, verkstjóri í Hraðfrystihúsinu í Hnífsdal, sem buðu heim.

„Ágústa er ættuð frá Stöðvarfirði en uppalin á Fáskrúðsfirði, en Sveinn Ísfirðingur. Þau hjón hafa aðgang að þeim bestu þorskhnökkum sem um getur í Hraðfrystihúsinu. Hnakkarnir sem þau hjónin buðu voru létt-pækilsaltaðir yfir nótt áður en þeim var velt upp úr hveiti og þeir steiktir á pönnu. Sannkallað góðgæti,“ segir Albert og deilir hér uppskriftinni með okkur.

Heimasíða Alberts.

Steiktur saltfiskur – sannkallað góðgæti

Veltið léttsöltuðum þorskhnökkum upp úr hveiti og steikið á pönnu, setjið í eldfast mót og inn í ofn.

Sósan:

Blaðlaukur
2 paprikur rauð og græn
4 – 5 gulrætur
Skerið allt grænmetið smátt og mýkið á pönnu.
Kryddið með salti, pipar, grænmetiskryddi og smá karrý.
3 pressaðir hvítlauksgeirar
Kjúklingakraftur
Setjið í pott ásamt 1/2 l af rjóma og látið malla í góðan tíma.

Steikið hörpudisk á pönnu, saltið og piprið eftir smekk, bætið við rækjum í lokin og hitið.
Berið fram sér.

Sjóðið kartöflur og flysjið, kremjið létt. Meðan þær sjóða er smjör brætt í potti,
einn hvítlauksgeiri pressaður út í og tvær rósmaríngreinar látnar malla í smjörinu, síðan hellt yfir kartöflurnar, parmesan yfir allt og látið brúnast létt í ofninum.

Boðið var upp á dýrindissaltfisk.
Boðið var upp á dýrindissaltfisk. Ljósmynd/Albert Eiríksson
mbl.is