Kjúklingarétturinn sem þið verðið að prófa

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Sumar uppskriftir eru í sérflokki og þessi hér er klárlega í þeim flokki enda fátt betra en léttklístraður kjúklingur með geggjuðu bragði.

Uppskriftin kemur úr smiðju Berglindar Hreiðars á Gotteri.is en það var dóttir hennar, Harpa Karin, sem sá um eldamennskuna og fékk móðirin einungis það hlutverk að taka myndir. Harpa hefur nokkrum sinnum gert sambærilegar uppskriftir eftur YouTube myndböndum en hér kemur hennar útfærsla sem er algjörlega geggjuð.

Appelsínukjúklingur uppskrift

Fyrir 4-6 manns

Krönsí kjúklingur

 • 1 pk úrbeinuð kjúklingalæri (um 500 g)
 • 90 g Maizena mjöl
 • 280 g hveiti
 • 1 msk. salt
 • 1 tsk. pipar
 • 1 egg
 • 270 ml vatn
 • 2 msk. ólífuolía
 • Olía til steikingar (um 800 ml)

Aðferð:

 1. Útbúið appelsínusósuna (sjá uppskrift hér að neðan) og geymið þar til kjúklingurinn er tilbúinn.
 2. Skerið kjúklinginn í munnstóra bita og leggið til hliðar.
 3. Hrærið þurrefnunum saman og bætið eggi, vatni og olíu saman við og pískið saman.
 4. Deigið á að vera álíka þykkt og pönnukökudeig (mögulega aðeins þykkara). Hellið kjúklingnum út í deigið og blandið vel.
 5. Hitið olíuna í um 180° í djúpum potti/pönnu (við flökkuðum á milli hæstu og meðalhæstu stillingar á helluborðinu).
 6. Setjið eins og 10 bita af kjúklingi í einu í pottinn með töng, losið í sundur og eldið í um 4-5 mínútur þar til húðin fer að gyllast.
 7. Takið upp úr með kleinuspaða/öðru götóttu áhaldi, hristið olíuna af og leggið á eldhúspappír á meðan þið steikið restina.
 8. Hrærið loks kjúklingnum út í heita appelsínusósuna og berið fram með hrísgrjónum, söxuðum vorlauk og sesamfræjum.

Appelsínusósa

 • 4 hvítlauksrif
 • 1 tsk. maukað engifer
 • 2 appelsínur (safinn úr þeim)
 • 100 ml hvítvínsedik
 • 4 msk. soyasósa
 • 2 tsk. sesamolía
 • 100 g púðursykur
 • 100 g sykur
 • ½ tsk. Cheyenne pipar
 • 3 msk. vatn
 • 3 msk. Maizena mjöl
 • Ólífuolía til steikingar

Aðferð:

 1. Steikið rifinn hvítlauk og maukað engifer upp úr olíu í um eina mínútu við meðalháan hita.
 2. Bætið öllum öðrum hráefnum nema vatni og Maizena mjöli á pönnuna og hrærið við meðalhita þar til sykurinn fer að leysast upp.
 3. Pískið saman vatn og Maizena mjöl í skál og bætið út í sósuna til að þykkja hana, getið bætt aðeins meira vatni við ef ykkur finnst sósan of þykk eða aðeins meira Maizena sé hún of þunn.
 4. Hrærið þá kjúklingabitunum saman við sósuna með sleif og njótið með hrísgrjónum, sesamfræjum og vorlauk.

- - -

Fylgstu með Mat­ar­vefn­um á In­sta­gram. Enda­laus æv­in­týri, hug­mynd­ir, skemmti­leg­ir leik­ir og allt það heit­asta heita ...

Svo megið þið endi­lega tagga okk­ur á In­sta­gram þegar þið eruð að elda eitt­hvað spenn­andi @mat­ur.a.mbl

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is