BBQ-kóngurinn gefur út svaðalega grillbók

BBQ kóngurinn var að gefa út bók, og er að …
BBQ kóngurinn var að gefa út bók, og er að koma með nýja kjötlínu á markað í sumar. Mbl.is/Facebook_BBQ Kóngurinn

Við þekkjum hann helst undir nafninu BBQ-kóngurinn, en Alfreð Fannar Björnsson var að gefa út nýja grillbók sem matgæðingar landsins munu elska. Bókin er stútfull af sælkeragrilluppskriftum, eða tvö hundruð blaðsíðna bók með gómsætum grillréttum, ráðum og aðferðum fyrir byrjendur jafnt sem lengra komna.

Alfreð eða Alli eins og hann kýs að vera kallaður hefur verið landsmönnum kunnur á skjánum með eigin matreiðsluþætti á pallinum heima – þar sem hann hefur sýnt okkur girnilega grillrétti af ýmsum toga. Nú er komin út fyrsta bók BBQ-kóngsins sem enginn má láta framhjá sér fara, en við náðum tali af Alla sem segir bókina þá flottustu sem gefin hafi verið út hérlendis. „Ég er í smá fríi frá þáttunum í sumar, enda búinn að gera 14 þætti á innan við ári, skrifa heila bók og sinna fullu starfi sem bílamálari hjá Magga Jóns í Keflavík. Að grilla hefur meira verið áhugamál, en þó gaman að segja frá því að fyrsta serían var tilnefnd til Edduverðlauna 2021 – sem var mjög spennandi,“ segir Alli.

Ný kjötlína á markað í sumar

Alli segir vel fitusprengt ribeye sem er eldað „reverse sear“ vera það besta á grillið. „Ég hef líka verið að vinna með ódýrari vöðva eins og „skirt steak“, en það er hrikalega góð steik. Maður verður að skera hana rétt, eða þvert á vöðvaþræðina. Ég er einmitt að koma með mína eigin kjötlínu í Krónuna núna í sumar þar sem þessi steik verður í boði ásamt picanha, „brisket“-hamborgara og „brisket“borgara með döðlum og beikoni. Þetta verður svakalega spennandi sumar þar sem Íslendingar geta prufað svona steikur sem hafa verið illfáanlegar hér á landi áður,“ segir Alli – og eru þetta miklar gleðifréttir fyrir okkur sem elskum sælkerakrásir og viljum prófa eitthvað nýtt.

Hvernig er best að undirbúa góða grillveislu? „Að undirbúa góða grillveislu er auðvitað hráefnið númer eitt, ég kaupi allt mitt kjöt í flottustu kjötbúð landsins, Kjötkompaníinu – þjónustan þar er algjörlega til fyrirmyndar. Svo myndi ég segja að gott grill væri mikill kostur, en ég nota Weber-gasgrill og eins kolagrillið frá þeim – Weber summit charcoal. Að öðru leyti er það góður vinahópur sem gerir veisluna betri.“

Hvaða drykkir eru ómissandi í grillveislum sumarsins? „Það er auðvitað einn skítkaldur Víking gylltur. Það verður alltaf að vera bjór við grillið nema maður drekki ekki, þá mæli ég með nýja Coke Zero, það er þrusugott.“

Bestu réttirnir fyrir vegan og grænmetisætur

Aðspurður segir Alli marinerað brokkolí með teryaki, hunangi og olíu skothelt á grillið og grilla það þar til það verður stökkt og örlítið brennt. „Það er auðvitað ekki vegan, en olía og salt og pipar virka líka. Svo er grillað toppkál rosalega gott með pikkluðum sinnepsfræjum,“ segir Alli sem er með sína eigin kryddlínu. SPG-kryddið hans Alla inniheldur salt, pipar og hvítlauk – allt grófmalað og hentar vel á steikur og grænmeti. CKN-kjúklingakryddið hentar vel á lambakjöt og hvítan fisk og BBQ-kryddið er hannað fyrir reyktan mat, rif og tætt svínakjöt.

Áttu þér uppáhaldsmarineringu?

Já, klárlega marineringarnar frá Kjötkompaníi, þær eru alveg sturlaðar og þá sérstaklega trufflu, kryddjurta, hvítlauks og pipar. En svo er alltaf gaman að gera sjálfur, ég gerði til dæmis frábæra karrímarineringu fyrir lambakótilettur  en það verður að kaupa bókina til að sjá hana ásamt fullt af öðrum góðum marineringum sem finna má í bókinni,“ segir Alli að lokum. Forsala að bókinni er hafin og má nálgast HÉR, en bókin afhendist í lok mánaðarins.

- - -

Fylgstu með Mat­ar­vefn­um á In­sta­gram. Enda­laus æv­in­týri, hug­mynd­ir, skemmti­leg­ir leik­ir og allt það heit­asta heita ...

Svo megið þið endi­lega tagga okk­ur á In­sta­gram þegar þið eruð að elda eitt­hvað spenn­andi @mat­ur.a.mbl

Flottasta grillbók landsins er væntanleg í lok mánaðarins.
Flottasta grillbók landsins er væntanleg í lok mánaðarins. Mbl.is/BBQ Kóngurinn
mbl.is