Ertu að eyðileggja sófann án þess að vita af því?

Við þurfum að hugsa vel um sófann okkar - mubluna …
Við þurfum að hugsa vel um sófann okkar - mubluna á heimilinu sem kostar marga aura. Mbl.is/©Ellos Home

Til að viðhalda sófanum okkar sem best er nauðsynlegt að kunna þetta húsráð hér því það er margt sem við gerum (ómeðvitað) sem veldur því að sófinn slitnar og eyðileggst fyrr en ella. En nýr sófi getur haft áhrif á budduna og við viljum sannarlega komast hjá því.

Þú gleymir að ryksuga sófann

Við ryksugum gólfið á heimilinu, en hversu oft ratar ryksugustúturinn upp á bólstruðu húsgögnin? Þetta er nokkuð sem við ættum að huga meira að, því við viljum ekki sitja ofan á alls kyns matarleifum og rykhnoðrum allan daginn.

Þú situr alltaf á sama stað

Við eigum okkar fasta vanastað í sófanum, en þar af leiðandi slitnar sófinn meira á þeim stað þar sem við erum vön að liggja. Prófaðu að færa þig til, eða ef pullur eru í sófanum skaltu svissa þeim annað slagið til að jafn út álagið.

Sófinn stendur í sólarljósi

Þú hefur eflaust ekki velt því mikið fyrir þér hvort sófinn stendur í sólinni allan daginn – en birtan getur gert það að verkum að sófinn missi lit eða verði mislitur. Fjárfestu í gardínum sem þú getur lokað mestu sólina af með þegar hún er hvað sterkust.

Þú ýtir í stað þess að lyfta

Ef þú ert týpan sem elskar að breyta og ert með málningarpensil á lofti annan hvern mánuð skaltu varast það að ýta sófanum á milli staða því þú getur eyðilagt fæturna undan honum ef þú flakkar með hann á milli án þess að lyfta honum upp. Þar fyrir utan mun gólfið klárlega finna fyrir því líka.

Að velta pullunum

Það er mjög mikilvæg regla að velta pullum og púðum reglulega til að allt fái nú jafna notkun – sama hvaða hlið á í hlut.

Þú situr á arminum

Armurinn á sófanum er í raun til þess gerður að hvíla höndina á – ekki til að sitja á. Það fer mjög illa með sófann.

Að hreinsa bletti

Ef einhver sullar niður í sófann skaltu takast strax á við blettinn því ef þú gerir það ekki og ætlar að bíða með það til morguns mun bletturinn sitja lengur og jafnvel festast fyrir vikið.

mbl.is