„Markmiðið er að bjóða upp á bestu sósurnar“

Ljósmynd/Aðsend

Grillsumarið er formlega hafið og spennandi nýjungar streyma í verslanir þessa dagana. Ein þeirra eru nýjar grillsósur frá Hagkaup sem þróaðar voru í samvinnu við Óskar Finnsson. Í samtali við mbl.is sagði Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaups, að ferlið allt hafi tekið um fimm mánuði.

„Það hefur verið spennandi vöruþróun hjá okkur í vetur og þá sérstaklega í grillvörunum. Sósulínan okkar er þar fremst meðal jafningja en markmiðið er að bjóða upp á bestu sósurnar á markaðnum. Til að ná því takmarki fengum við til liðs við okkur Óskar Finnsson, áður kenndan við Argentínu og nú nýlega við veitingastaðinn Finnson Bistro sem opnar á næstu dögum í Kringlunni,“ segir Sigurður en alls eru þrjár sósur í línunni; parmesan-, pipar- og svo hvítlauks.

„Óskar varð þekktur fyrir fræga hvítlaukssósu á Argentínu hér á árum áður. Okkur fannst því tilvalið að fá meistarann til liðs við okkur enda göfugt markmið að búa til bestu sósurnar á markaðnum. Vinnan byrjaði á vönduðum grunni sem samanstendur af þeyttum rjóma, sýrðum rjóma og mæjónesi. Þessu til viðbótar fær svo hver sósa sína sérstöðu eftir tegund,“ segir Sigurður en alls hefur ferlið tekið um fimm mánuði. „Þeirri vinnu er lokið og við erum hæstánægð með útkomuna.“

Þrjár mismunandi tegundir af sósum eru í boði:

· Parmesansósan er unnin úr 16 mánaða Parmigiano-Reggiano-osti frá Ítalíu, en þeir gerast ekki mikið flottari ostarnir. Útkoman er dásamleg sósa sem er algjörlega geggjuð með kjöti, pasta, fiski og í bökuðu kartöfluna.

· Hvítlaukssósan er bragðsterk, enda unnin úr ferskum nýpressuðum hvítlauk, en það gerir hana einstaka. Við erum gríðarlega ánægð með útkomuna á þessari sósu, en hún hentar vel með öllu grillkjöti.

· Piparsósan er svo fyrir þá sem vilja meira bragð. Sérvalinn pipar frá Omry í Kryddhúsinu, nánar tiltekið piparblanda með svörtum, grænum og hvítum piparkornum sem koma öll af sömu klifurjurtinni, Piper nigrum. Útkoman er frábær sósa sem matgæðingar munu elska með grillkjötinu.

Óskar Finnsson kom að hönnun sósanna.
Óskar Finnsson kom að hönnun sósanna.
mbl.is