Framleiða nútímalegar naslvörur á heimsmælikvarða

Responsible Foods er nýsköpunarfyrirtæki sem dr. Holly T. Kristinsson stofnaði árið 2019 til að þróa og framleiða alveg nýja tegund af heilsunasli úr íslenskum hráefnum. Holly, sem er upprunalega frá Bandaríkjunum, flutti til Íslands á dimmasta degi ársins 2015 og féll strax fyrir íslenskum matvælum og hráefnum, sér í lagi sjávarfanginu og mjólkurvörunum. Hún sá strax einstakt tækifæri til að koma íslenskum hráefnum á erlendan markað á formi sem hefur aldrei verið gert áður. Holly ólst upp í Alaska þar sem hún átti greiðan aðgang að heilnæmum hráefnum sambærilegum þeim sem við erum með á Íslandi.

Þegar hún flutti 15 ára til Flórída missti hún þessa tengingu við heilsusamleg matvæli úr heimabyggð, en endurheimti hana svo við flutninginn til Íslands. Holly er með doktorsgráðu í matvæla- og næringarfræði og með mikla reynslu úr matvælaiðnaðnum í BNA. Hún hefur mikla ástríðu fyrir því að sameina nýjustu matvælatækni og bestu mögulegu hráefni svo úr verði einstakar vörur. Það er einmitt tilgangur Responsible Foods, sem hún rekur ásamt eiginmanni sínum dr. Herði G. Kristinssyni sem er líka matvælafræðingur.

76% prótein

Fyrirtækið hefur ekki látið kórónuveirufaraldurinn stöðva sig, en í miðjum faraldri setti félagið upp fyrsta flokks vinnslu á Grandagarði í Reykjavík þar sem það framleiðir nú tvær vörulínur af einstöku nasli sem er selt undir vörumerkinu Næra™. Vörurnar fást meðal annars í Nettó, Hagkaup og Bónus. Ein vörulínan er poppaður 100% íslenskur ostur sem er annaðhvort kolvetnalaus eða kolvetnasnauður og því mjög hentugur fyrir fólk á lágkolvetnafæði.

Hér má til dæmis nefna ostanasl sem þau hjónin hafa þróað sem inniheldur um 76% prótein og er með áferð eins og kartöfluflaga en nánast kolvetna- og fitulaus. Seinni vörulínan sem fyrirtækið hefur þróað og framleiðir er poppað próteinríkt skyrnasl sem er fyrsta sinnar tegundar í heiminum. Aldrei áður hefur verið hægt að bjóða heimsbyggðinni upp á naslvöru unna úr skyri.

Fyrirtækið er með einkaréttinn á einstakri framleiðslutækni sem þurrkar hráefnin mjög hratt við mjög mildar aðstæður þannig að úr verði nasl með mjög skemmtilega poppaða stökka áferð. Vegna þess hversu hröð og mild aðferðin er þá varðveitast öll næringarefnin og sömuleiðis bragðið. Þar að auki er varan með mjög langt geymsluþol við stofuhita, eða um tvö ár. Þó heimamarkaðurinn sé mjög mikilvægur fyrir fyrirtækið þá er stefnan sett á útflutning og hafa vörur nú þegar verið fluttar út til Bandaríkjanna og Singapúr.

Ásamt því að framleiða naslvörurnar er fyrirtækið á fullu í rannsóknum og þróun, og eru með mörg verkefni í vinnslu sem hafa m.a. verið styrkt af Tækniþróunarsjóði, Matvælasjóði, Framleiðnisjóði landbúnaðarins og Nýsköpunarsjóði námsmanna. Þessi mikilvægi stuðningur og gott náið samstarf við ýmis fyrirtæki og Háskóla Íslands hafa skipt sköpum fyrir fyrirtækið. Auk þess að halda þróun og uppskölun áfram á skyrnaslinu er fyrirtækið að þróa alveg nýja tegund af fiskinasli ásamt því að rannsaka leiðir til þess að draga úr matarsóun og nýta hráefni í heilsunasl sem annars yrði sóað.

Þessa stundina er Responsible Foods að byggja sína seinni vinnslu á Fáskrúðsfirði í samstarfi við Loðnuvinnsluna. Sú vinnsla mun leggja áherslu á þróun og framleiðslu á fiskinasli sem verður fyrsta sinnar tegundar í heiminum. Áhersla verður lögð á að nýta hliðarafurðir eins og t.d. afskurð og uppsjávarfisktegundir og auka verðmæti þessara hráefna til muna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »