Vildi vera minn eigin herra

Guðrún sker sig úr hópi kaffihúsaeigenda í Kaupmannahöfn með því …
Guðrún sker sig úr hópi kaffihúsaeigenda í Kaupmannahöfn með því að bjóða upp á Íslenskan mat.

Ef gengið er niður Sankt Peders-stræti í miðbæ Kaupmannahafnar má sjá íslenskan fána fyrir utan kaffihús í götunni. Þar hefur Guðrún Þórey Gunnarsdóttir komið sér fyrir og rekur kaffihúsið Gudrun's Goodies sem býður meðal annars upp á íslenskt góðgæti. Staðurinn var opnaður í september síðastliðnum, skömmu áður en strangt samkomubann tók gildi í Danmörku sem leiddi til þess að Guðrún gat ekki boðið gestum inn á kaffihúsið í fleiri mánuði. 

Hvers vegna ákvaðst þú að opna kaffihús í Kaupmannahöfn sem sérhæfir sig í íslenskum mat?

Ég fór á flakk fyrir þremur árum og var að vinna sem ráðskona rétt fyrir utan Kaupmannahöfn. Þegar kom að lokum á því tímabili velti ég fyrir mér hvað ég ætti að gera næst. Ég átti kaffihús á Laugaveginum með frænku minni fyrir nokkrum árum og það var það skemmtilegasta sem ég hef gert. Ég vildi vera minn eigin herra og fannst Kaupmannahöfn svo upplögð fyrir þetta. Hér búa svo margir Íslendingar og margir koma hingað í heimsókn. Ég þekki marga slíka og hugsaði að ég gæti þá hitt fólk, sem mér finnst svo gaman. Ég kann ekki að gera neitt nema íslenskt, það eru kaffihús hér úti um allt og ég vildi skera mig úr.

Flatkökur og íslenskar pönnukökur eru meðal þess sem boðið er …
Flatkökur og íslenskar pönnukökur eru meðal þess sem boðið er upp á kaffihúsinu Gudrun's Goodies.

Hverjir koma á kaffihúsið?

Flestir eru Íslendingar. En alls konar Íslendingar. Ég fjárfesti í íslenskum fána og þeir sem eru ekki á samfélagsmiðlum þar sem ég hef verið að auglýsa hafa séð hann og litið inn. Eins hafa Danir sem þekkja Íslending eða verið á Íslandi verið duglegir að koma.

Hvað er vinsælast?

Flatkökur með hangikjöti. Engin spurning. Meira að segja kemur mikið af ungu fólki og biður um flatkökur með hangikjöti.

Hvernig gekk reksturinn þá mánuði sem bannað var að bjóða gestum inn á kaffihúsið?

Þetta gekk en var mjög erfitt. Ég var svo nýbúin að opna þegar lokað var í byrjun desember og féll því ekki undir það að fá styrk ef ég myndi loka. Ég ákvað því að hafa opið áfram. Í apríl bauð ég fólki að kaupa gjafabréf til að hjálpa mér upp síðustu brekkuna og það voru ofboðslega góð viðbrögð við því. Þetta er enn bras á meðan lítið af ferðamönnum kemur til landsins. En ég ætla að halda þessu áfram.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »