Stórbrotinn kjúklingaréttur frá Eyþóri Rúnars

Ljósmynd/Eyþór Rúnarsson

Góður kjúklingaréttur er gulli betri segja margir og við tökum heilshugar undir. Hér er á ferðinni uppskrift úr smiðju Eyþórs Rúnarssonar, meistarakokks með meiru, en hér ætti enginn að verða svikinn...

Parmesan og rósmarín kjúklingabringur með tómat-beikonsósu og gnocchi

Uppskriftin er fyrir 4

Kjúklingabringur

  • 4 stk. kjúklingabringur
  • 1 msk. fennelfræ
  • 2 msk. fínt skorið ferskt rósmarín
  • 1 stk. sítróna (börkurinn fínt rifinn)
  • Sjávarsalt
  • Svartur pipar úr kvörn
  • Ólífuolía
  • Parmesanostur 80 g

Setjið kjúklingabringurnar á bretti og berjið þær með kjöthamri þar til þær eru orðnar ca 1,5 cm þykkar allan hringinn. Brjótið fennelfræin í morteli og blandið þeim saman við rósmarínið og sítrónubörkinn. Dreifið blöndunni jafnt undir og yfir kjúklingabringurnar og kryddið þær líka með salti og pipar allan hringinn.

Hitið pönnu með ólífuolíu og brúnið bringunar báðum megin í ca 2,5 min á hvorri hlið. Setjið bringurnar í eldfast mót með gnocchi og dreifið tómatsósunni yfir gnocchiið og bringurnar. Setjið parmesanostinn yfir allt saman í lokinn og bakið við 180°c í 15 min eða þar til að bringunar hafa náð 73 gráðum í kjarnhita.

Tómat beikonsósa

  • 1 kg tómatar úr dós hakkaðir
  • 1 stk. rauðlaukur
  • 3 stk. hvítlauksgeirar
  • 1 bréf beikon
  • 2 msk. kjúklingakraftur
  • 1 msk. maple síróp
  • 3 msk. balsamico
  • Ólífuolía
  • Sjávarsalt
  • Svartur pipar úr kvörn

Skerið rauðlaukinn og hvítlaukinn gróft niður. Hitið pott með ólífuolíu og byrjið að steikja laukinn og hvítlaukinn. Skerið beikonið gróft niður og bætið út í potinn og steikið saman í ca 7 min eða þar til laukurinn er orðinn mjúkur.

Bætið tómötunum út í pottinn ásamt kjúklingakraftinum, maple sírópinu og balsamico edikinu. Sjóðið við væga suðu í 30 min og smakkið til með salti og pipar í lokin.

Gnocchi

  • 3 stk. bakaðar kartöflur (eða 400 gr af bökuðum kartöflum)
  • 1 egg
  • 400 gr hveiti
  • 1 tsk. fínt salt
  • Ólífuolía
  • 50 gr smjör
  • Sjávarsalt
  • Svartur pipar úr kvörn

Bakið kartöflunar við 190°C í 80 min. Skerið kartöflurnar í helming og skafið innan úr þeim. Stappið kartöflunar með gaffli og setjið í skál með eggi, salti og hveiti. Hnoðið allt saman í höndunum þar til að deigið er orðið fallegt.

Rúllið deiginu út í ca 1 cm þykkar rúllur og skerið það í ca 3 cm langar lengjur. Setjið gnocchið í sjóðandi vatn og sjóðið í 7 min. Takið Gnocchið upp úr vatninu og setjið í sigti.

Ljósmynd/Eyþór Rúnarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert