Stoltur af matnum og þakklátur fyrir viðtökurnar

Vilhjálmur Sveinn Guðmundsson er yfirkokkur á Finnsson Bistro.
Vilhjálmur Sveinn Guðmundsson er yfirkokkur á Finnsson Bistro. Kristinn Magnússon

Veitingastaðurinn Finnsson Bistro var opnaður í Kringlunni í síðasta mánuði og síðan þá hefur hvert metið á eftir öðru verið slegið. Staðurinn hefur mælst einstaklega vel fyrir enda einstaklega góður, notalegur og í alfaraleið. 

Maðurinn á bak við matinn er enginn nýgræðingur í bransanum en hann heitir Vilhjálmur Sveinn Guðmundsson og veit hvað það er að standa vaktina í öllum veðrum. 

Leiðir Vilhjálms og Óskars Finnssonar lágu saman á Grand hóteli þar sem þeir störfuðu báðir. Eftir það varð ekki aftur snúið og heldur Vilhjálmur nú um stjórnartaumana í einu vinsælasta eldhúsi landsins með dyggri aðstoð Óskars, sem er enginn nýgræðingur í bransanum eins og flestir vita.

„Samstarfið hjá okkur Óskari, og auðvitað fjölskyldunni allri, hefur verið einstaklega gott. Hausinn á Óskari er svo frjór og saman höfum við náð að setja saman matseðil sem ég er ofboðslega ánægður með. Það má segja að þar sé eitthvað fyrir alla því þannig er Finnsson Bistro. Hér eiga allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi,“ segir Vilhjálumur. 

„Óskar hefur líka einstakt auga fyrir smáatriðum og öllu þessu litla sem þarf til að koma hlutunum upp á næsta stig  hann á það til að segja: „Þetta er flott en ef þú bætir þessu við svona eða gerir þetta aðeins hinsegin þá verður það ennþá flottara.““

Matseðillinn hefur einmitt mælst einstaklega vel fyrir og er carpaccoið á seðlinum eitt það vinsælasta. „Þar er til dæmis pestóið mitt, sem ég er búinn að leika mér að því að fullkomna í fjölda ára. Það er æðislegt  og meira að segja vegan. Svona náum við að mætast,“ segir Vilhljálmur. „Hann kemur með hugmyndir og ég næ að aðlaga þær þannig að þær henti sem best því sem við erum að gera hér á Finnsson.“

Vilhljálmur segir hugmyndina vera að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi á Finnsson Bistro. „Hvort sem þig langar í stóra blóðuga steik eða létt salat þá er það í boði. Hér finna ungir sem gamlir eitthvað við sitt hæfi og það er sérstaða okkar ef svo má segja. Þessi staðsetning kallar að mínu viti á svona stað og vonandi sýna móttökurnar að það var rétt.

Þetta er búið að vera ótrúlega skemmtilegur og strembinn tími frá því við opnuðum og mig langar að þakka starfsfólkinu alveg sérstaklega fyrir. Ég væri ekkert án fólksins sem vinnur með mér. Ótrúlegt teymi í alla staði sem hefur staðið þétt við bakið á mér,“ segir Vilhjámur og bætir við að stærsta þáttinn eigi svo Finnsson-fjölskyldan, sem hafi veitt honum þetta einstaka tækifæri og trúað á hann.

En hvert er leyndarmálið á bak við hversu góður maturinn er? „Ég held að það sé gleðin. Ég er ofboðslega glaður og stoltur af því sem við erum að gera hér og ég held að það smitist yfir í matinn, ekki spurning,“ segir Vilhjálmur en bætir við að þetta sé líka samvinnan. Hér nái að spila saman þættir sem vegi þungt samanber reynslu Óskars Finnssonar. Fjölskylduþátturinn vegi líka þungt því það sé svo mikil ástríða fyrir staðnum og gestirnir fái eins góða upplifun og kostur er.

Hann segist ekki hafa átt von á viðtökunum. „Ég átti nú alveg von á einhverju en að það sé fullt á hverjum degi fór fram úr mínum björtustu væntingum. Þetta gengur rosalega vel og ég gæti ekki verið sáttari  og þakklátari. Ég elska að vinna með þessari fjölskyldu og ætla að halda áfram að gera mitt besta,“ segir Vihjálmur að lokum glaðbeittur áður en hann þarf að hlaupa aftur inn í eldhús.

Óskar og Vilhjálmur í eldhúsinu þar sem törfarnir eiga sér …
Óskar og Vilhjálmur í eldhúsinu þar sem törfarnir eiga sér stað. Kristinn Magnússon
mbl.is