Hágæða íslenskt Limoncello komið á markað

Ljósmynd/Limoncello Atlantico

Kominn er á markað hérlendis íslensk framleiðsla á hinum heimsfræga drykk Limoncello. Einungis eru notaðar lífrænar sítrónur frá Sikiley sem gerir gæðin einstök að öllu leiti.

Sagan á bak við framleiðsluna er skemmtileg en hún hófst í rakarastólnum hjá Herramönnum í Kópavogi þar sem þeir Kristján Nói Sæmundsson, framreiðslumeistari og Andri Kristleifsson hárskerameistari, ræddu áhuga Kristjáns á að flytja inn lífrænar sítrónur frá Sikiley og gera úr þeim íslenskt Limoncello.

Andri sagðist þekkja rétta manninn sem gæti flutt inn sítrónurnar og Kristján hafði strax samband við Bigga frænda í Þoran Distillery. Úr varð að Mata útvegaði þeim frændum lífrænar, eðal sítrónur frá Catania á Sikiley og Limoncello Atlantico varð til.

Fyrir þau sem þekkja ekki þann drykk þá er hér um að ræða sætan sítrónulíkjör sem er búinn til úr lífrænum sítrónum og er bestur nýkominn úr frystinum. Limoncello hefur verið framleitt í rúmlega 100 ár á Ítalíu en þetta er í fyrsta skiptið sem íslensk útgáfa af drykknum fer í almenna sölu hérlendis. Hugmyndin varð fljótt að veruleika þegar Þoran Distillery í Hafnarfirði tók að sér þróunina á þessu íslenska Limoncello, en þeir framleiða einnig hið margverðlaunaða Marberg gin.

„Við erum með ótrúlega stóra og fjölbreytta framleiðslugetu og getum því auðveldlega sinnt svona verkefnum,” segir Birgir Már, framkvæmdastjóri Þoran Distillery. „Markmiðið með þessari vöru var að hafa hana eins lífræna og hægt er og einnig hafa gott jafnvægi milli sætu, bragðs og styrkleika.” Það virðist hafa tekist hjá þeim því viðtökurnar á þessu íslenska Limoncello hafa verið afskaplega góðar.

„Áhuginn hefur verið gríðarlegur,” segir Kristján Nói, „þetta er nú þegar komið í hillurnar hjá veitingastöðum á borð við Kol, Nauthól, Bláa Lónið, Matkrána í Hveragerði og á fleiri staði. Við Birgir erum bara að sinna þessu tveir, það er framleiðslu, sölu og dreifingu, þannig að við heimsækjum alla þessa bari og veitingastaðir sjálfir, þiggjum kaffisopa og ræðum við fólk um Limoncello.

Þetta er frábær digestivo til að fá sér eftir mat en hentar einnig í kokteila á borð við Limoncello Spritz og Limoncello Gin og Tónik. Hægt er að panta flösku með því að hafa samband við Þoran Distillery í Hafnarfirði eða á vefsíðu Limoncello Atlantico.

Birgir Már Sigurðsson.
Birgir Már Sigurðsson. Ljósmynd/Limoncello Atlantico
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert